27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

62. mál, skoðun á síld

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Þessi breyting síldarmatslaganna, sem hjer liggur fyrir, á að vera einn þáttur í þeirri viðleitni, sem hafin er um vöruvöndun í landinu. Það má ganga að því vísu, að fyrirkomulag það, sem ætlast er til að haft sje, verði til þess að auka álit og verðgildi vörunnar á útlendum markaði. Það þarf ekki að efast um það, að þessi deild muni gera sitt ítrasta til þess að styðja þessa viðleitni með því að samþykkja þetta frv. og gera það svo úr garði, að það geti komið að tilætluðum notum.

Sú vörutegund, sem hjer ræðir um, þarf sjerstaka umhirðu og vandvirkni á alla grein; þegar ekki þarf nema nokkrar tunnur af heilum farmi til þess að spilla verðinu á honum öllum, þá er það auðsætt, að nauðsynlegt er að vanda vöruna sem best.

Jeg get nú komist hjá því að vera langorður um þetta frv. og brtt. nefndarinnar, með því að í nál. er vikið að hvorutveggja.

Brtt. nefndarinnar, sem máli skifta, eru 1., 6. og 7. brtt. Aðrar brtt. eru ekki svo mikilvægar, að ástæða sje til að fjölyrða um þær.

Um 1. brtt. skal jeg láta þess getið, að hún gerir talsverðan mun frá því, sem var eftir frv., og má vera, að hún veki ágreining milli deildanna, en samt er jeg og nefndin í engum vafa um það, að þessi breyting er nauðsynleg, en fyrirkomulag það, er frv. gerir ráð fyrir, lítt framkvæmanlegt. Það er vafalaust óframkvæmanlegt að hafa ákveðna þyngd í hverri tunnu, vegna kostnaðar og fyrirhafnar, og telja má jafnvel, að vinnukraftur til þess yrði ófáanlegur á stundum. Þetta veldur því, að 1. brtt. nefndarinnar er nauðsynleg.

Reglan um þetta hefir verið, að það væri samningsatriði á milli kaupanda og seljanda; vanalega hefir verið gætt að þunganum í nokkrum tunnum, þetta frá 2 til 10% af öllum söluhlutanum, og svo tekinn meðalþunginn af því. Þetta hefir reynst nokkurn veginn ábyggilegt, en með þessu hefir sparast mjög mikill kostnaður.

6. brtt. nefndarinnar, við 5. gr., er ekkert álitamál að er til bóta; það sjá allir um leið og þeir líta á hana.

Í frv. var ætlast til, að síld sú, sem metin er, væri undir nákvæmu eftirliti frá því hún veiddist og þar til hún er flutt út. Þetta telur nefndin mjög erfitt, og heldur ekki nauðsynlegt, því hún telur að með endurmatinu fáist fullkomin trygging fyrir, að síldin sje góð vara.

Þetta eru aðalbrtt. nefndarinnar, er hún mælir mest með; hitt eru orðabreytingar. Jeg vænti þess, að frv. með brtt. nefndarinnar verði samþ.