20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

127. mál, friðun fugla og eggja

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi, ásamt hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), leyft mjer að bera fram frv. þetta í þeirri von, sem ekki hefir látið sjer til skammar verða, að deildin leyfði afbrigði um það, þar sem það er of seint fram komið, og enn fremur í því trausti, að það þurfi ekki að tefja óhæfilega tíma þingsins, svo einfalt og óbrotið sem það er.

Eins og hv. þingdm. muna, voru gefin út lög um fuglafriðun 1913, og með þeim ófriðaður látinn frægasti og fegursti fugl landsins, valurinn. Síðan hefir honum fækkað mjög, og leggjum við því til, að hann verði friðaður til 1930, en ófriðaður úr því.

Annar frægastur íslenskra fugla, örninn, er nú ófriðaður frá 1. jan. s. 1. Friðunartíma hans var þá lokið, eftir áður nefndum lögum frá 1913. Þessi fugl er nú orðinn mjög sjaldsjeður, og er ef til vill því sem næst útdauður. Að minsta kosti hefi jeg ekki haft spurnir af því, að hann hafi neinstaðar bækistöð eða varpstað. Við höfum leyft okkur að leggja til, að hann verði alfriðaður til 1940, því að ef hann væri útdauður hjer nú, þá kynni hann þó á þessu tímabili að flytjast hingað frá Spitzbergen eða Grænlandi og ílendast hjer, ef hann fengi að vera í friði.

Það má nú auðvitað hafa á móti þessari friðun, eins og gert var 1913, að þetta sjeu ránfuglar, og því sjeu þeir ekki til uppbyggingar, heldur miklu fremur til tjóns og skaða. En mjer fyrir mitt leyti fyndist hinn mesti sjónarsviftir að því, ef þessir fuglar hyrfu alveg úr landi, og úr ráni þeirra geri jeg ekki mikið. Mjer finst það miklu fremur ætti að vera metnaðaratriði oss Íslendingum að vernda þessar fuglategundir og halda við þessari landsprýði, því að svo vil jeg nefna þá.

Fjárhagslega getur friðunin tæplega spilt fyrir nokkrum, nema ef til vill einstaka rjúpnaskyttu. Álitamál getur það verið, hvort sektirnar, sem hjer eru ákveðnar, eru nógu háar, en okkur flutningsmönnum virtist sektarákvæði þau, sem frv. tiltekur nægilega há. Jeg sje ekki ástæðu til að vísa málinu í nefnd. Það er svo einfalt og auðskoðað og ætti að liggja öllum í augum uppi. Jeg geri því enga tillögu um yfirskoðun í nefnd. Sje jeg ekki ástæðu til frekari ummæla, nema ef mótmæli kunna að koma fram.