23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

127. mál, friðun fugla og eggja

Sigurður Stefánsson:

Jeg þarf ekki að vera langorður, því að jeg hafði gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í gær.

Jeg held, að brtt. mín geri engan glundroða á frv. Það get jeg að minsta kosti ekki sjeð í fljótu bragði. Ástæðurnar fyrir brtt. eru hinar sömu og jeg gat um í gær, að það er algengt, að valurinn skemmi varp. — Ekki er mjer kunnugt um, að valnum fari fækkandi á þeim slóðum, þar sem jeg þekki til, enda fær hann að æxlast í næði og er mjög sjaldan skotinn, af því að ilt er að fá færi á honum. Og sama er mjer sagt úr Strandasýslu, Skagafirði og Þingeyjarsýslu. Þegar jeg var að alast upp, sást hann sjaldan í Skagafirði, en nú er hann algengur á Vestfjörðum.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þótti ekki ástæða til að ófriða valinn fyrir það, þótt hann gerði við og við spjöll í varpi. Jeg skal játa, að það var ekki gild ástæða, ef nokkur líkindi væru til, að hann væri að deyja út. En þegar svo er ástatt, að þess sjást engin merki, hvorki á Vestfjörðum nje á Norðurlandi, virðist mjer það þó vera gild ástæða, að hann er vondur gestur í varpi og stundum er ekki hægt að stunda lundaveiðar fyrir honum marga daga í röð. Lundinn verður svo hræddur við hann, að hann flýgur á sjó út. En hins vegar er lundatekja hlunnindi í mörgum eyjum. Úr því að valurinn gerir þennan glundroða og honum fer ekkert fækkandi, að því er best verður sjeð, býst jeg við, að deildin geti samþ. brtt. mína.

Annars er mjer þetta ekkert sjerstakt áhugamál. Jeg mundi telja það illa farið, að valurinn væri ófriðaður, ef hann væri að deyja út, eins og háttv. 1. þm. S-M. (Sv. Ó.) hjelt fram, en á því er engin hætta.