25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

1 (Þingmaðurinn óskar þess getið, að hann hafi ekki lesið yfir í handriti ræður sínar við þessa umr. fjárlagafrv.)

Eins og deildarmenn munu hafa orðið varir við, hefir nefndinni ekki unnist tími til að skrifa neitt nefndarálit. Vænti jeg því, að menn taki vel eftir því, sem jeg segi um hinar einstöku brtt.

Jeg skal byrja mál mitt á því, að nefndin getur verið Ed. þakklát fyrir meðferð hennar á fjárlögunum. Fjárveitinganefnd Ed. hefir stigið spor í sömu átt og fjárveitinganefnd Nd., enda hefir nefnd Nd. viljað brjóta sem minst í bág við stefnu nefndar Ed.

Jeg skal geta þess, að gjöldin hafa vaxið um 200 þús. kr. í Ed. En fjárveitinganefnd Nd. hefir nú borið fram ýmsar brtt. við þessa gjaldhækkun, og ef þær verða samþ., hækkar hún um 100 þús. Og ef brtt. samsamgöngumálanefndar verða samþ., nemur hækkunin 150 þús. Jeg hefi ekki lagt saman þá hækkun, sem brtt. einstakra manna hafa í för með sjer, því að brtt. þær, sem tilheyra þeim kafla, sem jeg á að hafa framsögu í, eru að eins 3. Og skal jeg nú fara nokkrum orðum um helstu brtt. nefndarinnar.

Fyrsta brtt., á þgskj. 970, er ekki efnisbreyting. Liðurinn er kominn inn á skakkan stað, en nefndin vildi kippa þessu aftur í lag.

Þá er 2. brtt., sem fer í þá átt, að hjer í Reykjavík skuli vera 4 tollverðir. Jeg gat um nauðsynina á þessu máli við 2. umr. Till. Nd. hefir Ed. ekki breytt, en hins vegar tekið það fram, að þó að fje yrði ekki veitt til fleiri en 3, þá gæti lögreglustjóri tekið 4. manninn. Þetta vildi nefndin undirstrika með því, að setja laun handa 4 tollvörðum í fjárlögin, og vænti jeg, að þessi fjárhæð verði nægileg.

Að svo komnu máli hefi jeg ekki fleira að segja.