25.08.1919
Neðri deild: 44. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

134. mál, húsaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg átti von á því, að það kæmi hljóð úr horni einhversstaðar frá. Það er ekki auðvelt að koma svo fram með tekjuaukafrumvarp, að engan taki sárt til buddunnar. Hins vegar held jeg, að þetta sje ekki nema sanngjarn skattur, ef tekið er tillit til þess, að hús hafa hækkað um meira en helming verðs frá því sem var, og að þetta á að eins að gilda í 2 ár. Auk þess kemur hið nýja mat á fasteignum ekki í gildi fyr en eftir að þessi skattur er afnuminn.

Jeg skil, hvers vegna háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) er að amast við frv.; það er af því, að frv. kemur langþyngst niður á Reykjavík. En jeg er líka sjálfur húseigandi í Reykjavík og tel ekki eftir mjer að borga skattinn, þótt jeg hafi keypt dýrtíðarverði og borgi eftir dýrtíðarvirðingu. Og þar sem húseignir hafa hækkað í verði ár eftir ár, get jeg vel felt mig við, þótt skattur af þeim sje hækkaður lítið eitt. Ef það er ósanngjarnt, þá veit jeg ekki hvað sanngirni er.