29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það hefði mörgum fundist það rjettlátt að leggja verðhækkunarskatt á húseignir manna og fasteignir yfirleitt, því óneitanlega hafa eignir þessar stigið mjög í verði. Þeim sem selt hafa hús og eignir, hafa flestir grætt stórfje á sölunni, og þeir sem hafa haft svo mikið húsrúm, að þeir hafa getað leigt öðrum, hafa einnig grætt á verðhækkuninni, og enn hafa þeir, sem eiga hús og búa í þeim, án þess að leigja, grætt á því, að húsin voru bygð fyrir stríðið, því þeir búa fyrir svo litla leigu. Loks er um þá húseigendur að ræða, sem bygt hafa nú seinustu árin: á þá kemur skattaukinn verst, en þessir menn eru svo tiltölulega örfáir, enda skatturinn svo lítill, svo þeirra vegna er engin sjerstök ástæða til þess að bregða fæti fyrir þennan skattauka. Jeg held því, að þó þessi skattur væri jafnvel aukinn enn meira, þá kæmi hann ekki hart niður á húseigendum.