29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

134. mál, húsaskattur

Einar Arnórsson:

Það var eitt í ræðu hv. frsm. (M. G.), sem rjettilega var tekið fram, og það var, að brtt. á þgskj. 547 er óheppilega orðuð, þar sem stendur „notuð eru til íbúðar“. Það geta sem sje verið hús, sem notuð eru að einhverju leyti til íbúðar og að einhverju leyti til verslunar eða annarar atvinnu. Þau hús, sem eru að einhverju leyti notuð til verslunar eða annarar atvinnu, er engin ástæða til að undanþiggja skattinum, því að leiguhæð eru þar engin önnur takmörk sett en þau, er almenn viðskiftalögmál setja. En það mætti bæta úr þessu með því, að breyta orðalaginu eitthvað á þennan veg: „sem notuð eru til annars en íbúðar“.

Það átti ekki vel við í þessu tilfelli, sem hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sagði um verðhækkunarskatt. Þeir eru sem sje margir, sem ekki eiga hús til að braska með þau, heldur til að búa sjálfir í þeim eða leigja þau öðrum til íbúðar. Og þótt hús hafi eitthvað hækkað í verði, þá skilst mjer þó að verðhækkunarskatt skuli að eins leggja á verulega verðhækkun. Jeg álít því ekki ástæðu til að leggja skatt á hús, sem menn eiga að eins til að búa í, annan en þann sem legst á þau með hækkaðri virðingu. Það væri lítil meining í, ef jeg ætti hús sem fyrir stríðið var virt á 10.000 en nú er virt á 30.000, að leggja sjerstakan skatt á slíka pappírshækkun. Það væri þá fyrst, ef jeg hefði selt húsið með miklum gróða.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. (M. G.) sagði um, að hærra lán mætti nú fá út á hús í veðdeildinni, eftir að þau hafi verið virt upp og virðingarverð hækkað, þá verð jeg að efast um. að bankinn taki mikið tillit til þess, þótt hús hafi hækkað að brunabótavirðingu vegna dýrtíðarinnar.

Það er nokkuð til í því, sem hv frsm. (M. G.) sagði viðvíkjandi veðskuldum, að menn drægju að aflýsa þeim, en spurningin er, hvort ekki er hægt á annan hátt að hafa hönd í bagga með þessu. Það er næstum því algild regla, að á hverju húsi hvílir fyrsti veðrjettur. Þessa skuld eina mætti því t. d. taka til greina við skattálöguna, en hinar ekki.