29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

134. mál, húsaskattur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vildi segja nokkur orð í sambandi við ræðu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), þar sem hann mintist á, hvort húsin væru notuð eingöngu til íbúðar, eða að einhverju leyti til annars.

Jeg skal geta þess, að við flm. íhuguðum þetta atriði, en okkur þótti ekki taka því að gera nokkra undantekningu fyrir þá skuld, að hús væri notað að einhverju litlu leyti til annars, t. d. að haft væri skóarastofa eða smíðaverkstæði í kjallara eða því líkt. Við álitum, að ekki tæki að flokka húsin eftir því. Ef húsið er notað að miklu leyti til annars en íbúðar, er sjálfsagt að telja þau ekki í flokki íbúðarhúsa. Annars væntum við, að háttv. deild verði svo sanngjörn, að hún samþykki brtt. okkar, með því að enginn hefir enn þá sýnt fram á, að þær væru á nokkurn hátt ósanngjarnar. Háttv. frsm. (M. G.) gat um, að þær mundu verða erfiðar í framkvæmdinni, en jeg hygg, að það reynist ekki svo. Aftur á móti skildist mjer á ummælum hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að hann tæki þessum till. mjög vel.