25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Jón Jónsson:

Eins og bent hefir verið á, er nauðsynlegt, að á næsta aukaþingi yrðu tekjurnar auknar svo, að þær stæðust hjer um bil á við gjöldin. Enda hefir það áður komið fram hjer í hv. deild, að hv. þm. hafa skorað á stjórnina að rannsaka eða láta rannsaka skattamálin og það hvort ekki væru neinar nýjar leiðir, sem mætti fara. Þurfa nýjar till. að miðast við þörf á auknum tekjum að mun. Jeg vildi leyfa mjer að vekja athygli stjórnarinnar, út af þessari till., á því, að hún þarf að athuga gaumgæfilega, á hvern hátt best er að leiða þetta mál til lykta. Í því sambandi vildi jeg benda á, að má ske væri ráðlegt að heita háum verðlaunum fyrir bestu ritgerðina, sem samin yrði um skattamál. Það er ekki að vita, nema það kynni að bera einhvern árangur. Það er ekki gott að segja um, hverjir kunna að hafa best vit á þeim málum. Það gætu alveg eins verið einhverjir af þeim, sem lítið eða ekki hafa látið til sín heyra um þau mál hingað til. En ef heitið væri t. d. 2000 kr. verðlaunum, þá er ekki að vita, nema það yrði hvöt fyrir þá til þess að láta álit sitt uppi í ritgerð. Svo mætti auk þess heita öðrum og þriðju verðlaunum fyrir þær ritgerðir, er næstar væru að gæðum. Þó að til þessa gengi 4–5000 kr. þá er það ekki mikil upphæð, ef það yrði til þess að greiða fyrir málinu. Það er ekki svo lítið unnið við það, ef góðar till. fengjust í þessu máli, sem gæti má ske orðið til þess að minka óþarfa þref hjer á þingi. Jeg vildi að eins skjóta þessu fram til hæstv. stjórnar, svo að hún vissi, að hún stæði ekki ein, þó hún tæki þetta ráð. Enda býst jeg við, að hún telji sig hafa heimild til að gera þetta.