04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

134. mál, húsaskattur

Magnús Torfason:

Hæstv. fjármálaráðherra var að tala um verðhækkunarskatt á húsum. Það er fullkomlega rjett, að verðhækkunarskattur á fasteignum hefði verið með sjálfsögðustu sköttum, ef hann hefði verið lagður á í tíma. Stjórn, sem hefði verið starfi sínu vaxin, hefði fyrir löngu verið búin að sjá svo um, að sá skattur hefði komist á. En nú er það orðið of seint. Eins og nú er komið, væri það hróplegt ranglæti. Það er ekki hægt að skilja sauðina frá höfrunum, þá, sem nýlega hafa keypt hús eða bygt, frá hinum, sem eignuðust hús sín fyrir dýrtíð. Líkt er að segja um hækkunina á húsaskattinum. Þar er látið fara saman kálfur og kýr. Þeir, sem þola, og þola ekki skattinn. Það ætti þess vegna að fyrirgefast, þó að jeg sje ekki hrifinn.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að hækkunin á skattinum kæmi ekki illa niður á öðrum en þeim, sem nýlega eru búnir að reisa sjer hús, og hafði mín orð fyrir því, að þeir væru sárfáir, sem nýbúnir eru að byggja. Af þessu dró hann þá ályktun, að hækkunin kæmi rjettlátlega niður á nær öllum. En þetta er útúrsnúningur, því jeg lagði aðaláhersluna á það, að skatturinn mundi fæla þá mörgu, sem þess þurfa, frá að byggja, og það því fremur, sem það er aldrei hagur að því að byggja þegar alt er að lækka í verði.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði að jeg væri samkvæmur sjálfum mjer um það, að vera á móti öllum tekjuaukafrumvörpum. Jeg hafði ekki búist við því úr því sæti, að farið væri með bein ósannindi. Það eru ýmsir skattar, sem jeg hefi viljað hækka, en það kann að vera, að hann hafi verið á móti þeim hækkunum allflestum. Þá má nefna frv. um hækkun á vitagjaldi, sem honum var nuddað til að bera fram, fyrir talsverða brýningu frá mjer.

Jeg stend við þau orð mín, að tekjur muni á næsta fjárhagstímabili verða 50% hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Um hitt hefir mjer verið ómögulegt að gera áætlanir, hve eyðslusamt þetta sparsemdarþing mundi reynast, er til kæmi. Jeg hefi að eins talað um, að tekjurnar mundu verða glæsilegar. En eyðslusemin getur gert út af við allar tekjur, hve miklar sem eru.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) lauk máli sínu á því, að hækkunin á húsaskattinum væri betri en ekki neitt, þó lítil væri. Með þessum orðum er pólitík hans rjett lýst. Hann kemur með svona óverulega tekjuauka, sem jafnframt eru ósanngjarnir, og því verri en ekki neitt, en skilur eftir stóra álögustofna, sem gætu borið mikla og rjettmæta skatta.

Það er engin von til, að þingmenn sjeu að koma með tekjuaukafrumvörp. Í skattamálunum á að vera samræmi, en það er hætt við, að það færi út um þúfur, ef þm. væru að tína tekjufrv. hver úr sínu horni, án þess að bera sig saman. Það ætti að vera meiri trygging fyrir samræminu þegar stjórnin kemur með tekjuaukafrumvörp, þó stundum vilji út af því bregða.