04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

134. mál, húsaskattur

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þegar jeg leit á dagskrána, bjóst jeg ekki við, að teljandi umræður yrðu um annað en það mál, sem nú er verið að ræða. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir haft margt við frv. að athuga, en engar brtt. komið fram með, svo líklega mun það tilætlun hans að reyna að fella það. Það er svo langt frá því, að jeg geti fylgt honum þar að málum, að mjer finst þvert á móti of skamt farið í frv. Einhverjir hafa borið húsaskattinn saman við tekjuskattinn. En mjer væri mest að bera hann saman við ábúðarskattinn. Ábúðarskatturinn hvílir á allri landareign bóndans, eða öllum leiguliðaafnotum hans, en hjer í Reykjavík eru fjölda margar verðmætar lóðir óskattaðar. Ábúðarskatturinn hefir hækkað stórkostlega á síðustu árum, vegna hækkunarinnar á verðlagsskránni. Ofan á það er nú fram komið nýtt jarðamat, þó ekki hafi enn verið lögð á það síðasta hönd. En af því mun að öllum líkindum leiða mikil hækkun á ábúðarskattinum. Saman borið við ábúðarskattinn ætti því ekki að vera mikið á móti því að hækka húsaskattinn um helming. Það virðist svo, að menn sjeu að hneigjast meir og meir að því, að auka beinu skattana á föstu tekjustofnunum, og í þá stefnu fer þetta frv. Jeg býst því við, að flestir deildarmenn muni ljá því atkvæði.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) er ekki viðstaddur, þá vildi jeg svara fyrir hann þeim ummælum hv. þm. Ísaf. (M. T.) að öll skattafrv. hans væru óveruleg og munaði ekkert um þau. Hv. þm. Ísaf. fanst þó nóg um frumvörpin um toll af síldartunnum og um útflutningsgjald af síld, ekki alls fyrir löngu. Sami hv. þm. sagði, að það væri stjórnarinnar, en ekki þingsins, að koma fram með skattafrumvörp. En jeg vil spyrja hann: Hvar verður skyldan um að koma fram með tekjuaukafrv., þegar þingið hækkar útgjöldin um miljónir frá því, sem er í fjárlagafrv. stjórnarinnar?