04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

134. mál, húsaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg kom með nokkrar athugasemdir við frv. við 1. umr., og jeg hefi ekki sannfærst enn um, að þær hafi ekki verið á rökum bygðar. Hinu er ekki hægt að gera við, þó einhverjir sjeu svo skilningsnaumir hjer í deildinni, að þeir skilji ekki mælt mál. Hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) skildi ekki muninn á því, hvort skattar eru reiknaðir af höfuðstól eða rentum. Gerum ráð fyrir, að tveir menn, A. og B., eigi 25 þús. kr. hvor um sig. Segjum, að A. byggi fyrir sína peninga; þá verður hann að greiða hundraðsgjald af allri fjárhæðinni. En segjum, að B. geymi sína peninga í sparisjóði; þá sleppur hann með að greiða hundraðsgjald af rentunni af höfuðstól sínum. Það er því ómótmælanlegt, að mönnum er hegnt fyrir að byggja hús yfir sig eða aðra. Þetta ætti að vera auðskilið hverju fermingarbarni. Hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) þarf ekki að lá mönnum, þó þeir taki ekki sem best eftir orðum hans, þegar hann reynist ekki skilningsbetri en þetta. Það virðist næst að halda, að hann skilji ekki aðra en sjálfa sig; hann er þá líka einn um það.

Það ætti þó að vera þyngst á metunum, að húseignir eru alls ekki frjálsar hjer í Reykjavík. Meðan húsaleigulögin gilda, ætti að vera óþarfi að auka á byrðar húseigenda í Reykjavík. Auk þess linnir ekki dýrtíðinni svo, að ekki fylgi verðfall á húseignum, og má gjarnan taka tillit til þess. Þó að húsaleiguskatturinn hafi kann ske verið of lágur í upphafi, virðist óþarfi að hækka hann nú, meðan húsaleigulögin eru í gildi og verðfall á húsum er yfirvofandi.

Jeg hefi að vísu ekki komið með brtt. við frv., þó það kann ske hefði verið rjettara.

Jeg held, að landssjóð geti aldrei munað mikið um þessa upphæð, því að minsta kosti í Reykjavík, þar sem mestu skiftir, eru flest hús í veðböndum, og mörg í fullkominni veðsetningu, og af þeim húsum er engan skatt að hafa.

Jeg skal eigi blanda mjer í deilur hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) og hv. þm. Ísaf. (M. T.), um fjárhagslegar horfur landsins, en jeg verð þó að taka fram, að mjer finst alls eigi sjálfsagður hlutur að bæta upp allan halla landssjóðs á einu og sama árinu með sköttum og álögum, sem allar eru í molum og án alls samræmis. Þó að halli landssjóðs sje nú orðinn um 2 miljónir — og jeg játa fúslega, að hann er mikill — er jeg samt orðinn svo bjartsýnn og trúaður á, að atvinnuvegir landsins sjeu komnir í svo gott horf, að af því stafi engin stór hætta. Úr því við höfum getað borið dýrtíðina um margra ára skeið, býst jeg við, að við getum borið þennan tekjuhalla. Jeg álít langtum heppilegra að taka skattinn í heild sinni þar, sem gjaldþol er fyrir, en að nurla þeim saman svona smátt og smátt. Landssjóðnum er ekki gagn að 20–30 þúsund króna tekjuauka, en hann getur orðið til að vekja óánægju og óhollan krít milli stjettanna.