04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi eigi heyrt allar umræðurnar um þetta mál, og því miður heyrði jeg eigi röksemdafærslu hv. 4. landsk. þm. (G. G.); en mjer skildist hann vera á móti frv.

Jeg hefi þegar tekið fram ástæðurnar fyrir þessu frv., og hefi því litlu við að bæta. Allir húsaeigendur hafa stórgrætt á þessum síðustu árum, húsin hafa stórhækkað í verði og leigan aukist að miklum mun. Það er öllum vitanlegt, að þeir, sem hafa eignast hús hjer í Reykjavík síðustu árin, hafa orðið fyrir stórhappi, svo þessi litli skattur virðist á engan hátt ósanngjarn.

Jeg heyri sagt, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi ámælt stjórninni fyrir að koma eigi fram með verðhækkunarfrv. Að vísu mun enginn neita, að sá skattur sje rjettlátur, en það er — eins og hv. þm. (M. T.) ætti að vita — afarerfitt að finna rjetta leið, þannig að skatturinn komi eingöngu niður á þeim sem grætt hafa á verðhækkuninni, en ekki á hinum, sem hafa orðið að kaupa húsin dýru verði. Jeg veit til, að í útlöndum hefir komið fram uppástunga um að haga skattaálagningunni eftir mismuninum á eignum manna fyrir og eftir stríðið, leggja sjerstakan skatt á gróðann á stríðsárunum; en þar er einnig við þann erfiðleika að stríða, að finna mismuninn á eignum manna þá og nú. Skattur sá, sem hjer er farið fram á, er svo lítill, að engum getur orðið verulegur bagi að honum.

Annars hygg jeg, eftir því sem jeg þekki hv. þm. Ísaf. (M. T.), bæði á þessu þingi og öðrum, að þá mundi hann alls eigi hafa greitt atkvæði með verðhækkunarskatti, heldur á móti honum.

Háttv. frsm. (G. Ó.) tók rjettilega fram, að hinn eini tekjuauki fyrir landssjóð, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hefði barist fyrir, hefði verið „halinn“, því hundaskatturinn, sem hann að vísu barðist mjög hraustlega fyrir, rennur ekki í landssjóð. En mjer finst rangt að láta hann eigi njóta sannmælis í því, er hann hefir vel gert.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) heldur fram, að stjórnin hafi verið afardugleg að ná tekjum í landssjóð, hafi jafnvel náð altof miklu. Að gefnu tilefni skal jeg geta þess, að þessi stjórn hefir, eins og sjálfsagt var, reynt á alla vegu að afla landssjóðnum tekna. Get jeg t. d. tekið stimpilgjaldið, sem mun nema 800 þús. til 1 miljón króna. Vona jeg, að stjórnin hafi gert skyldu sína í því efni. — Annars verð jeg að taka fram, að jeg hefi aldrei orðið var við, að háttv. þingmenn hafi stungið upp á neinn leið til að afla landssjóði tekna. — Jeg býst við að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi reiðst, er jeg sagði honum að fara heim og læra betur.

En það var eigi annað en heilræði, sem jeg gaf honum, því það er hálfleiðinlegt að sjá þennan háttv. þm. altaf vera að beita vagni sínum móti síldarskattinum. Það getur hvort sem er aldrei orðið annað en neyðarvörn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) var altaf að nudda á „smátekjum“; virtist hann ekki vera hræddur við að auka skuldir landssjóðs, jafnvel að miklum mun. En jeg hygg þó, að allir sjeu sammála um, að jafnframt og farið er inn á þá braut, verði þó að sjá fyrir vöxtum og einhverjum afborgunum af skuldunum. Fjárhagsástandið fer að verða ískyggilegt, ef á að greiða tekjuhallann með láni, sjerstaklega ef tekjuhallinn á fjárhagstímabilinu nú verður eins mikill og eftirstöðvarnar af gömlu skuldunum fyrir stríðið (um 2 miljónir).

Vextir og afborganir nema heldur ekki svo litlu, er skuldirnar frá síðasta fjárhagstímabili nema 3½ miljón króna, að frádregnum hagnaðinum af landsversluninni. Þar við bætist 2 miljóna halli fyrir stríðið, og á þessu ári nemur hallinn 1 miljón. Auk þess á að setja inn í fjárlögin 2 milj. lántöku til vega- og húsagerða. (M. T.: Eru fjárlögin til umræðu?). Það er rjett hjá hv. þm. Ísaf. (M. T.), að fjárlögin eru ekki til umræðu, en jeg gat ekki komist hjá að gefa dálítið yfirlit yfir fjárhaginn, enda hygg jeg, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi gott af að heyra þessa lexíu, og það þó oftar væri.

Að endingu vil jeg taka fram, að jeg vonast til, að hv. deild felli ekki þetta frv.