04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

134. mál, húsaskattur

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hjelt, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) mundi aðallega tala í þessu máli við 3. umr.; en ef þessi stutta athugasemd á að vera fyrirboði langrar ræðu, er eigi útlit fyrir, að málið taki stuttan tíma.

Það er nýtt fyrir mig að heyra, að það, sem jeg segi, sje meira en að helmingi ósatt. En jeg skrifa þau ummæli á reikning geðsmuna hv. þm. Ísaf. (M. T.), sem hann virðist ekki hafa sem best vald á í dag, og tek mjer þau alls ekki nærri.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) studdi ekki tolllagafrumvarpið, og hann var beint á móti frv. um tunnutoll og útflutningsgjald af síld. Annars þarf jeg ekki að svara persónulegum árásum á mig. Dettur mjer ekki í hug að erfa við hann, þó honum hrykkju sterk orð af munni, og gengur því ljett að skoða þau sem dauð og ómerk.