04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

134. mál, húsaskattur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) sagði, að jeg hefði ekki skilið hvað jeg fór með, og hann ekki heldur. En þrátt fyrir það tekur hann að sjer að svara ræðu minni. Mjer virtist hann helst vilja halda því fram, að enginn skildi þetta mál nema hann. Enda er hv. 4. landsk. þm. (G. G.) vanur að halda sjer við það heygarðshornið.

Jeg tók víst meiningu mína ekki nógu greinilega fram fyrir þennan hv. þm. (G. G.).

Jeg gekk út frá, að það þyrfti ekki að segja honum, að eignaskatturinn er tekinn að eins af vöxtum höfuðstóls, en munurinn er þá líka sá, að eignaskatturinn getur orðið 15% af háum tekjum. Og mjer er sagt, að yfirleitt láti húseigendur hjer sjer ekki nægja minna en 12% í húsaleigu. Tal hv. þm. um það, að ef farið er út í þetta á annað borð, væri best að taka til meðferðar alla skattalöggjöfina, hefði átt betur við fyr, því að svo marga skatta er nú búið að hækka á þessu þingi, án þess að hann hafi hreyft þessari mótbáru.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) var eitthvað að tala um það, að tæpast væri við því að búast, að hann ljeti ekki til sín heyra, þegar ræða væri um skatt á sjávarútveginn. En mjer er þá spurn, hvort þm. heldur, að húseignir tilheyri sjerstaklega sjávarútveginum?

Þá var sami hv. þm. (M. T.) að tæpa á því með kurteisum orðum, eftir því sem um er að gera frá honum, að jeg og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) mundum ekki hafa logið nema helmingnum. En það getur nú verið af því, að jeg á sæti í fjárhagsnefnd með þessum hv. þm. (M. T.), að jeg veit fult eins vel og aðrir hvernig hann er inni við beinið í þessum skattamálum. Jeg veit t. d. ekki betur en að hann hafi verið andvígur síldartollinum, andvígur útflutningstollinum — og í einu orði sagt, andvígur flestum tollum.

Þá var hv. þm. eitthvað að tala um það, að hann hefði ekkert verið við riðinn hundapólitíkina. En ósatt er þetta, því hann hefir setið í nefnd, sem fjallað hefir um málið og fylgt hv. 4. landsk. þm. (G. G.) í því að hækka hundaskattinn.

Svo að hv. þm. Ísaf. (M. T.) er því áreiðanlega kominn í hundana, engu síður en aðrir.