04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

134. mál, húsaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) virtist vilja leggja áherslu á það í þessu sambandi, að það væri gróðavegur að eiga hús, því menn græddu á húsaleigunni. Jeg hefi engar sannanir heyrt færðar fyrir þessu — og er ekki heldur við því búinn að sanna hið gagnstæða með ákveðnum tölum. En jeg er þó viss um, að ekki er mikið hæft í þessu. Fyrst og fremst ákveður húsaleigunefndin leiguna og gerir það ekki mjög hátt, og svo hafa komið ýmsir skattar og stór útgjöld á síðustu árum, sem hafa ekki verið tekin með í reikninginn. Þá má nefna brunabótagjald, en ekki þarf að borga það af peningum í sparisjóði, svo ekki nær samanburður hv. 2. þm. Húnv. (G.Ó.) þangað. Enn má nefna vatnsskattinn og annan tiltölulega nýjan skatt, öskuskattinn, og ekki er hann minstur. Jeg hefi t. d nýlega talað við mann, sem leigir öðrum manni íbúð fyrir 90 kr. á mánuði, en verður að borga 111 kr. í öskuskatt, og er eldstóin þó engin, því alt er soðið á prímus Síðast má nefna salernahreinsun, sem auðvitað er ekki gefin, þó hún geti verið nauðsynleg. Þegar menn tala því um það, að hús sjeu leigð með 12% gróða, og miða það við 4% af peningum, þá er það fjarstæða, sem engum er samboðið að flytja í Ed., nema 2. þm. Húnv. (G. Ó.). Í fyrsta lagi mun „ágóðinn” alls ekki vera 12%, og öðru lagi væri þá hjer að ræða um brúttótekjur, sem mörg önnur útgjöld hvíla á, eins og jeg taldi áðan, ekki síst þegar reiknað er með sæmilegt viðhald.

Að öðru leyti er ekki vert að taka til bæna það, sem hv. frsm. (G. Ó.) sagði. Það, sem aðallega einkennir hans ræður, er þetta ljómandi og ánægjulega bros, sem skín út úr hverjum drætti í andlitinu á honum, þegar hann hlustar á sjálfan sig. En þó er hætt við, að brosið hverfi, ef hann getur lesið drættina í andliti áheyrendanna.