10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

134. mál, húsaskattur

Magnús Torfason:

Eins og menn muna var það hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), sem gerði þetta 25 þús. króna frv. að fjárlagafrv. Hann hefir 70 sinnum 7 sinnum sagt, að þingið verði að fara „ósköp varlega“, og talað háum tónum um þá ábyrgð, sem hvíldi á þeim, sem væru á móti þessum hans mikla tekjugetnaði, þeir væru óþjóðhollari og verri þm. en hann o. s. frv. (Fjármálaráðh.: Hve nær hefi jeg notað þessi orð?). Jeg hefi ekki tilfært orð hæstv. fjármálaráðh.(S. E.) og þykist ekki skyldur að muna orðrjett það, sem hann segir. En meiningin var þessi. Hann tók svo til að gefa mjer föðurlegar áminningar og bendingar, og gerði lítið úr mjer. Jeg hafði ekki nefnt hann sjálfan á nafn í minni ræðu, og hefði honum verið jafngott að halda sjer við efnið. En það er nú sem fyr, að það er ekki hægt að hafa hendur í hári hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Hann smýgur frá öllu, sem hann hefir sagt, með sinni dæmalausu ónákvæmni. Maðurinn er ekki sjálfráður að þessu; það er vegna þess, að hann er skáld. Jeg vil þó gefa honum bendingu um að verða ekki of upp með sjer af þessum dómi mínum. Jeg hefi altaf viðurkent það og játa það enn, að jeg hefi svo dæmalaust lítið vit á skáldskap.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) hefði verið betra að halda sjer fyrir utan þessa deilu. Hann, sem jeg hefi aldrei sagt öfugt orð um, fór að skjóta örvum að mjer, maður, sem þingið hefir sýnt óendanlegt um- burðarlyndi og jafnan hlíft fyrir aldurs sakir. Honum hefði verið sæmra að vera ekki að kasta grjóti úr sínu þunna glerhúsi.

Jeg get slegið því föstu, að hæstv. fjármálaráðherra hefir ekki getið neitað því að jeg hefi verið fylgjandi stærri tekjuaukum, að síldartollinum undanteknum. (Fjármálaráðh.: Hvar hefi jeg játað það?) En um síldartollinn má geta þess, að það var einstakur þm. hjer í deildinni, sem bjargaði töluverðum peningum fyrir þetta ár handa ríkissjóði. Það hafði hæstv. fjármálaráðherra ekki fundið upp hjá sjálfum sjer, þó honum hefði staðið það næst.

Hæstv. fjármálaráðherra segir, að jeg hafi verið örðugur í skattamálunum. Jeg hefi þó bent honum á nýjan skattauka, sem mikið mun muna um. (Fjármálaráðh.: Hvað er það?). Jeg vil ekki fleipra því í deildinni, þar sem það er enn ekki komið fram. En tilkynt hefir hann hjer í deildinni nýjan skattauka, og munu allir deildarmenn vita, við hvað jeg á.

Um vitagjaldið vil jeg að eins segja það, að hafi hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hafi það gjald í huga fyrir þing, þá hefir meðgöngutími hans verið lengri en í meðallagi.

Þar sem jeg mintist á, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir verið fylgjandi lækkun á sköttum frá því, sem verið hefir í frv., sem fram hafa komið, þá var það gert til að sýna honum sjálfum fram á, að það þarf ekki að vera nein minkun að því, að geta ekki fylgt öllum skattaálögum, sem einhverjum og einhverjum kann að detta í hug. Jeg skal viðurkenna að það var upphaflega mín tillaga að hafa 2 kr. skatt á suðuspritti, sem og var samþykt. Að því er „halanum“ viðkemur, þá barði jeg hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) til að greiða honum atkvæði.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) þarf ekki að vorkenna mjer. Mín aðstaða er góð, og þar sem mjer er sjerstaklega vel við ráðherrann persónulega, vildi jeg óska, að hans afstaða væri ekki verri.