05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

136. mál, vitagjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Frv. þetta hefir fjárhagsnefnd Nd. flutt, eftir áskorun stjórnarinnar. Tilgangurinn er að hækka vitagjöldin til að fá meira fje til vitabygginga. Á næsta fjárhagstímabili mun eigi ganga til vitamála minna en 150 þús. kr. á ári, að rekstrarkostnaði meðtöldum. Jeg hygg að vitagjald hafi komist hæst upp í ca. 60 þús. kr., en þá var hækkunin frá 1917 ekki komin í gildi. Seinni árin hefir vitagjaldið verið mjög lágt vegna siglingateppunnar. Árið sem leið var það um 30 þús. kr., að því er mig minnir. Hækkunin úr 40 aur. af smálest upp í 1 kr. er að vísu nokkuð mikil, en skarar þó ekki langt fram úr vitagjaldi annarsstaðar. Annarsstaðar á Norðurlöndum er gjaldið ekki eins hátt af útlendum skipum, en af innlendum skipum er það kr. 1.50 af smálest. Annarsstaðar er gjaldið af útlendum skipum venjulega greitt tvisvar, þegar þau koma og fara, en það gildir einu, hvort höfð er sú regla, eða að alt sje greitt í einu, eins og til er ætlast í þessu frv. Jeg vona, að hv. deild taki þessu frv. vel, þar sem markmiðið er að greiða fyrir byggingum nýrra vita.