30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

98. mál, akfærir sýslu- og hreppavegir

1880Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer, ásamt hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að bera fram frv. þetta. Hjer er ekki um nýmæli að ræða, því að þingið hefir áður sett heimildarlög á ýmsum sviðum, og með því viðurkent, að þau geti verið nauðsynleg og rjettmæt. Reynslan hefir og sýnt, að slík lög eru yfirleitt ekki varúðarverð og naumast mun þurfa að óttast, að þessi heimildarlög komi ranglátlega niður, þótt hjer sje farið inn á nýtt svið.

Það má heita lífsskilyrði fyrir landið, ekki síst fyrir landbúnaðinn, að vegagerð um sveitirnar gangi sem greiðlegast. En það vantar mikið á, að svo sje.

Ríkissjóður hefir í mörg horn að líta, og hefir hingað til ekki getað lagt fram nægilegt fje til hraðfara vegabóta. Sýsluvegasjóðir eru þess ekki heldur megnugir, eins og högum er nú háttað. Þetta frv. er komið fram til þess að ljetta undir fyrir mönnum með að hrinda fram vegagerðum í sveitum, þar sem menn vilja leggja á sig aukagjöld, til að flýta fyrir þeim. Það er gert til þess, að einstakir menn sem vilja hliðra sjer hjá að leggja fram fje til þeirra vegagerða, sem mikill meiri hluti manna í bygðarlaginu vill leggja út í og telur nauðsynlegar og arðvænlegar, geti ekki orðið þar þrándar í götu, eða skotið sjer undan tillagi til vegagerða, sem líklegt er að þeir hafi þó eigi síður gagn af en hinir, sem vegagerðina kosta. Þessi ákvæði geta varla orðið varúðarverð, eins og um er búið í frv. Það er gert ráð fyrir, að samþyktir um vegalagningar þær, sem frv. ræðir um, sjeu bornar undir vegamálastjórn landsins, og með því það er hún, sem á að afmarka alt vegakerfi landsins og hafa glögt yfirlit yfir það, þá má vænta þess, að einstökum sveitum leyfist ekki að efna til vanhugsaðrar vegagerðar eftir þessum lögum, heldur muni stjórnin grípa í taumana og synja samþykt um slíka vegagerð staðfestingar.

Jeg legg til, að frv. þessu sje að loknum umræðum vísað til samgöngumálanefndar.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg hefi borið málið undir vegamálastjórann, og virtist honum hjer vera stigið spor í rjetta átt.