10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta frv. er sjerstaklega fram komið af því, að sú hefir orðið reyndin á, sjerstaklega í Reykjavík, að það hefir getað komið fyrir, að bæjarfógeti — og hið sama getur hent sýslumenn — hefir haft svo miklum störfum að gegna, að hann hefir annaðhvort ekki eða með naumindum komist yfir þau. Þá getur verið heppilegt, að þessir embættismenn hafi löggilta fulltrúa, er geta tekið að sjer þau störf, sem nefnd eru í 1. gr frv. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekki neitt að athuga við þessa grein. Að eins geri jeg ráð fyrir, að ekki verði að nauðsynjalausu verið að láta fulltrúa framkvæma þessi störf. Enda er tekið fram, að það skuli að eins vera í forföllum dómarans. Enda væri það víst ekki heppilegt, að aðalembættismaður kæmi sjer hjá að fara með þau störf.

En aftur á móti gæti 2. gr. frv. stutt að því, að vikið væri frá þeirri reglu, er taka átti upp, með því að skifta bæjarfógetaembættinu í Reykjavík. Sú regla, er þar var tekin upp, var að aðskilja umboðsvald og dómsvald. Þessari reglu verður ekki haldið eins hreinni, ef samþykt er 2. gr. frv. En því verður víst ekki neitað, að í mörgum tilfellum gæti það orðið hagkvæmt, að lögreglustjóri eða löggiltur fulltrúi hans geti tekið á móti sektaframboði. Jeg legg því ekki fyrir mitt leyti svo ríka áherslu á regluna, að ekki megi gera undantekningar. Það verður oft að fara eftir því sem hagkvæmast er í slíkum störfum.

Vænti jeg þess, að frv. þetta fái að ganga til 2. umr. Og með því að jeg hygg, að það heyri sjálfsagt til og hafi verið farið með af allsherjarnefnd hv. Ed., býst jeg við, að því verði vísað í sömu nefnd hjer.