10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg held jeg fari rjett með það, að hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), sem hefir borið frv. þetta fram, hafi borið það undir allsherjarnefndir beggja deilda, og það sje borið fram í nafni samvinnunefndar allsherjarnefnda þingsins. Þarf því væntanlega ekki að vísa því til nefndar.

Bæjarfógetinn hjer í Reykjavík segir, og mun það satt vera, að erfitt sje fyrir einn mann að komast yfir rannsóknir í opinberum málum yfir höfuð að tala. Enda er raunin sú, að síðan bæjarfógetaembættinu var skift hefir orðið að skipa sjerstaka menn til að rannsaka 2 stór mál, er gerst hafa hjer í Reykjavík á síðustu mánuðum.

Get jeg nefnt bæði þessi mál. Annað þeirra mun hafa verið út af viðgerð stjórnarráðshússins, en hitt þetta „óskikkelsis“-mál, sem hjer gaus upp í vetur. Í sambandi við þessi mál þurfti mikla rannsókn, sem hinn reglulegi dómari treysti sjer ekki til að anna vegna annara starfa, er embætti hans fylgja.

Jeg get ekki sjeð, að mikil hætta geti stafað af því að samþykkja þetta frv. Það er að eins til að skipa dómaraembættið í lögreglumálum. Flest þessara opinberu lögreglumála eru mjög svo vandalítil. Þarf vanalega ekki mikið til að afgreiða þau. En það getur þó tekið talsverðan tíma og stapp að rannsaka þau. Aftur er sakamálsrannsókn talsvert vandasamari. En þeir, er rannsaka, eru menn, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem útheimtast til þess að geta orðið dómari hjer á landi. En eins og kunnugt er, eru það oft nýbakaðir kandídatar frá prófborðinu, sem fá veitingu fyrir sýslum. Og það mun vafalaust verða svo, með þeim launakjörum, sem nú er verið að skapa embættismönnum, að grípa verður þann fyrsta og eina er fæst. Það mun vafalaust ekki verða svo mikil eftirspurn eftir þessum embættum af hálfu lögfræðinga.

Enn fremur er þetta takmarkað svo, að það má að eins eiga sjer stað í forföllum hins reglulega dómara. Það er ekki svo til ætlast, að hinn reglulegi dómari geti hve nær sem hann vill sent fulltrúa sinn til að starfa í þessum málum, heldur að eins þegar hann er forfallaður. Get jeg ekki sjeð mikla hættu fólgna í þessu, því að löggjafarvaldið getur ekki gengið út frá því, að menn misbeiti þessari heimild. Og þetta tekur að eins til kaupstaða landsins. Annarsstaðar virðist þess ekki þörf, eins og nú hagar til.

Um 2. gr. frv. er það að segja, að það sýnist óþarfur „formalismus“, að bæjarfógeti þurfi endilega að koma til í lítilfjörlegum málum, ef sökunautur sjálfur gengst undir að borga sekt. En annars verður að leita sátta fyrir dómi.

Nú getur lögreglustjóri ekki sett dóm. Alt þetta verður því að fara til bæjarfógeta. En þetta kalla jeg óþarfa „formalismus“, sem valdið getur talsverðri fyrirhöfn og kostnaði. Enda vona jeg, að það sje ekki meining hæstv. forsætisráðh. (J. M.) að amast við þessu ákvæði.

Sem sagt get jeg ekki sjeð, að minsta hætta felist í ákvæðum þessa frv. Þar sem svo stendur á, að reglulegur dómari getur ekki annað því forfalla vegna að halda sjálfur próf í málum, þá hefir það, eins og jeg drap á áðan, orðið úrræðið að fela það ungum mönnum; þeir geta verið góðir menn, þótt þeir geti ekki talist æfðir menn. Aðrir eru ekki fáanlegir. En jeg býst við, að segja megi um þá tvo, er jeg nefndi, að þeir hafi leyst starf sitt af hendi mjög samviskusamlega, með fullri greind og kunnustu.