10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Frsm. (Einar Arnórsson):

Ef hætta stafar af því að láta dómsmálaráðherrann löggilda menn þá, er hjer um ræðir, þá er eins hætta að láta hann yfirleitt veita dómaraembætti. Ef ráðherra er ekki treystandi að skera úr því, hvort maður er fær um að verða löggiltur dómari eða ekki, þá verður að taka af honum veitingarvaldið.

Viðvíkjandi tali okkar hv. þm. Dala (B. J.) um eigin ábyrgð, og að yngri menn ynnu ef til vill betur en eldri, sje jeg ekki betur en jeg hafi rjett fyrir mjer. Við vorum að samjafna því og hættuleysinu, sem stafaði af því, að bæjarfógetinn framkvæmdi sjálfur, eða ljeti fulltrúana gera það. Hv. þm. hjelt, að jafnvel minni hætta væri, ef fulltrúarnir framkvæmdu, og erum við þá á sama máli, því við komum okkur saman um það, að sá yngri hefði hvöt til að vinna verkið betur.

En við erum ekki sammála um muninn á eigin ábyrgð og annara ábyrgð. Jeg held, að hjer komi að eins til greina skaðabótaábyrgð, því ekki er hægt að hegna bæjarfógeta fyrir það, sem fulltrúar gerðu, þó að þeir framkvæmdu það ekki á eigin ábyrgð. Þá er það almenningsálitið, og býst jeg ekki við, að hv. þm. vilji undanskilja fulltrúana því. Eftir verður þá að eins skaðabótaábyrgð, og er vafamál, hve mikilsverð hún er. Það getur og komið til mála, að bæjarfógetinn eigi endurgjaldskröfu á hendur fulltrúunum, ef hann verður að borga fyrir þá.