25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Háttv. framsm. (B. St.) talaði um till. á þgskj. 973, og er það satt að segja, að hann talaði sem andstæðingur hennar. Það var satt, að samvinnunefndin var ekki öll á einu máli, en stór meiri hluti var þó með því, að bera fram till., og minni hlutinn lýsti því yfir, að hann mundi ekki gera málið að kappsmáli, þó hann áskildi sjer rjett til að greiða annari till. atkv., ef hún kæmi fram. Hv. frsm. (B. St.) skýrir því ekki rjett frá, þegar hann segir að minni hlutinn hafi ætlað að greiða atkv. á móti þessari till., og getur hann að eins sagt slíkt um sjálfan sig. En nefndinni var þó ekki kunnug þessi afstaða hv. frsm. (B. St.), því hann var rokinn af fundi, áður en hann fengi gefið slíka yfirlýsingu.

Viðvíkjandi efni till. er það að segja, að Suður- og Vesturland eru olnbogabörn um strandferðir. Norður- og Austurlandi er borgið með Sterling og skipi Þorsteins Jónssonar, og jeg fæ ekki skilið, að þeir sem þar búa, geti verið á móti því, að reynt verði að bæta strandferðir annarsstaðar líka. Um keppinaut við Þorstein Jónsson er ekki að tala, og skil jeg ekki, að hann eigi heimtingu á einokun á strandferðum landsins, þó að hann hafi tekið að sjer hluta þeirra fyrir ærið fje, og, að því er mjer og öðrum virðist, of mikið fje. Jeg held, að það sjeu hagsmunir hans að þurfa ekki að anna Suður- og Vesturlandi, því hann á fult í fangi með að þeytast milli endastöðvanna og halda áætlun. Það er því sprottið af ókunnugleik að halda, að þetta verði Þorsteini Jónssyni til ama, og hann getur ekki hlaupið frá tilboði sínu, því við það er hann bundinn.

Um skilyrðið er það að segja, að nefndin taldi rjett, að skýrt væri ákveðið, að uppfylla þyrfti áætlunina. Þetta er ekki sprottið af vantrausti, heldur eru það sjálfsagðar skorður. En þó virðist full ástæða til að hafa allan varann á. Það er grunsamlegt að Þorsteinn Jónsson hefir ekkert skip til, og E. Nielsen efast um, að hann fái það. Þegar svo er, taldi nefndin sjálfsagt að reisa skorður við því, að ekkrt yrði úr þessu og landið strandferðalaust. Það virðist heldur engin meining í því, að veita fjelagi ærið fje, og vita svo ekkert, hvort það uppfyllir það, sem um er samið, eða ekki. Jeg vona, að háttv. þm. sjái, að það er ekki forsvaranlegt að henda 100 þús. kr. út í óvissu; það verður að gera ráðstafanir til, að sú upphæð komi að tilætluðum notum.

Nefndin hefir lagt til að færa styrkinn til Sterlings niður um 25 þús. kr. og bæta því við strandferðir til Suðurlands. Það er meiningin að losa Sterling við eina ferð norður og austur, og gert ráð fyrir, að hægt verði að fara eina ferð til útlanda og á þeirri ferð á að græðast.

Um áætlunina er það að segja, að hún er engan veginn fastákveðin, heldur eru að eins teknir fram frumdrættirnir. Smáatriðum verður auðvitað breytt, eftir því sem best á við.

Faxaflói hefir orðið út undan um samgöngur, og á nú að veita 25 þús. kr. til þeirra, auk þess, sem fyrir er. Ef þessar 50 þús. kr. verða of mikið, þá má verja því til ferða um Breiðafjörð, og reyna að bæta eitthvað úr því málamyndakáki, sem nú er. Þetta verður viðlit til að bæta úr þörfinni, þar sem hún er brýnust.

Einnig er það viss hluti Suðurlands, sem alveg hefir orðið út undan, og er illa fyrir honum sjeð með því káki sem nú er. En þó að ekki sje úr því bætt, þá verð jeg að sætta mig við till., eins og hún er.

Það er ekki að vænta að allir hv. þm. hafi jafnan áhuga á strandferðum við hina ýmsu hluta landsins, og get jeg því sætt mig við þá tilhögun, að stjórnin semji nánar um ferðir Sterlings og Suðurlands, og gerir hún það vitanlega eftir tillögum stjórnar Eimskipafjelags Íslands.

Stjórninni er selt sjálfdæmi, og er það viðunandi lausn til þess að alt lendi ekki í skelfingu, eins og hætt er við, þegar sumir gera alt sitt til að ónýta málið og ganga erinda einstakra manna sem hagsmuna hafa að gæta.