22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 456, og veldur því sjer í lagi umhugsun mín um það, hvers vegna svona háir skattar eru lagðir á þessar vörutegundir.

Í fyrsta lagi er jeg mótfallinn því, að elta með skattaálögum hverja þá tilraun til starfa, sem verið getur þjóðinni heldur til gagns, og í öðru lagi er hjer um tvær atvinnutegundir að ræða, sem sje annars vegar um vindla- og vindlingagerð, en hins vegar tilbúning brjóstsykurs og konfekts, en efnið í báðar þessar vörutegundir er þegar búið að tolla, og verður að taka tillit til þess, ef tilbúningur þeirra á að geta staðist samkepni við samskonar útlendar vörutegundir.

Skal jeg fyrst snúa mjer að fyrri lið brtt.

Jeg veit ekki, hvort hjer á landi er nokkur vindlagerð, en hvort sem svo er eða ekki, finst mjer of langt gengið í frv. Samkv. frv., er fyrir skömmu er afgreitt hjeðan frá þinginu, var tollurinn af vindlum hækkaður upp í 8 kr. af hverju kg., og á því sá, er framleiðir vindla hjer á landi samkvæmt 2. gr. frv. þess, er nú er til umræðu, að greiða 4 kr. toll. En á tóbaki því, er hann notar í vindlana, er 4 kr. tollur á hverju kg., og greiðir hann þá samtals í toll af hverju kg. af vindlum sem hann framleiðir, 8 krónur, eða alveg sömu upphæð og útlendir vindlar eru tollaðir með.

Þetta er of hart, og sjest það best þegar athuguð er 1. gr. frv., en samkvæmt henni á sá, er reka vill innlenda vindlagerð eða tilbúning á konfekti eða brjóstsykri, að greiða 100 kr. fyrir leyfi til að reka þessa iðn. Auk þess mun eiga að borga í stimpilgjald af leyfisbrjefinu 100 kr., og er því 200 kr. skattur lagður á þann mann, er koma vill slíku fyrirtæki í framkvæmd. Hann er með öðrum orðum lakar settur en sá, sem selur útlenda vindla.

Engum blöðum er um það að fletta, að þetta er sama og að banna að búa til vindla á Íslandi, en tilgangurinn með tolllögum er sá, að afla landinu tekna, en ekki að koma fram sem bannlög í framkvæmdinni.

Verði frv. samþykt óbreytt, er sama upp á teningnum og þingið segði: Hjer er að ræða um varhugaverða, já, varla sæmilega atvinnu, sem best er að vera laus við.

Að vísu er ekki um þarfavöru að ræða.

En þegar hún er flutt inn í landið og keypt hvort sem er, er betra, að eitthvað af arðinum fari inn í landið, en að hann fari allur út úr því.

Ef það sýndi sig, að hægt væri að græða á þessum atvinnuvegi, væri og í lófa lagið að láta þann, er fyrir gróðanum yrði, greiða heldur beina skatta, t. d tekjuskatt. En þetta finst mjer of langt farið. Hjer er um meinlausa atvinnu að ræða, og því heldur til bóta, að hún gæti borið sig í landinu, og ekki rjett að taka fyrir kverkarnar á henni, ef svo mætti að orði komast.

Hvað brjóstsykur- og konfekttollinum viðvíkur, er nokkuð öðru máli að gegna. Á brjóstsykri, sem flyst frá útlöndum, er nú 2 kr. tollur á hverju kg., og yrði því eftir frv. þessu 67 aura tollur á hverju kg. af innlendum brjóstsykri. Þar við bætist 15 aura tollur á sykri, svo tollurinn verður saman lagður 82 aurar. En þó svo sje, að mismunurinn á tolli á hverju kg. af innlendum og útlendum brjóstsykri nemi 118 aurum, stenst brjóstsykurgerðin, sem nú er, tæplega samkepni við erlendar brjóstsykurgerðarverksmiðjur.

Jeg álít, að styðja beri þá íslenska menn, sem atvinnu hafa af þessu, í samkepninni við útlendinga, og því hefi jeg komið fram með brtt. þessar.

Ef brtt. mínar verða samþyktar, lækkar tollurinn á hverju kg. af innlendum vindlum og vindlingum um 133 aura, en hvert kg. af brjóstsykri og konfekti um 17 aura.

Jeg hygg, að ríkissjóði verði svo lítill tekjumissir af þessu, að ekki sje vert, að þessar breytingar verði gerðar að kappsmáli, enda rjett að sýna í því alla sanngirni. Má og taka tillit til 1. gr. frv., sem sýnist fullhörð a. m. k. fyrir mann, er rekið hefir verslun áður, að þurfa að kaupa nýtt atvinnuleyfi, þótt hann vilji reka vindla- eða brjóstsykurgerð í sambandi við hana.

Samkepni er auk þess svo mikil með tóbakssölum, að óhugsandi er, að nokkur maður treystist til að setja upp innlenda vindlagerð, ef frv. verður samþ. óbreytt.

Vænti jeg því, að hv. deildarmenn ljái brtt. mínum fylgi sitt.