22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg verð að segja, að mjer finst hálfkynlegt, að brtt. þessar skuli vera fram komnar nú, þar sem enginn andmælti frv. við 2 umr. Lítur helst út fyrir, að flutningsmaður þeirra hafi ekki hugsað þar upp fyr en of seint.

Eins og jeg lýsti yfir í framsöguræðu minni, og nál. bar með sjer, þótti nefndinni það hæfilegur tollur á umræddum vörutegundum, er frv. tiltekur, og áleit ekki rjett að breyta því.

Að. vísu getur verið vafi um það, hvort vindlatollurinn sje ekki of hátt settur, því eftir frv. er lík aðstaða þeirra, er selja útlenda vindla, og hinna, er selja innlenda, en lakari er aðstaða hinna síðarnefndu ekki.

Öðru máli er að gegna með brjóstsykur og konfekt. Þar er tollurinn á hinum innlenda til muna lægri, þar sem hann verður alls 82 aurar (15+67) á kg., en tollur á útlendum brjóstsykri er 2 kr. á hverju kg.

Mjer er sagt, að enginn hafi vindlagerð sem stendur, og kemur því ekki að bráðri sök, þó vindlatollurinn verði hækkaður, því ilt er að útiloka menn frá tilraunum til að gera vindlagerð innlenda, þar sem varan er mikið notuð.

Leyfisbrjefin kosta með stimpilgjaldi 105 krónur, en ekki 200, eins og hv. 4. landsk. þm. (G. G.) vildi halda fram. Til þessa atvinnurekstrar þarf iðnaðarleyfi, en ekki verslunarleyfi. Jeg þori að fullyrða, að ekki kemur til nokkurra mála, að tollurinn sje of hár á konfekti og brjóstsykri. Hitt, með toll á vindlagerð, kynni fremur að vera álitamál.

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) ljet ókunnuglega og spurði, í hvaða tilgangi væri verið að koma með þetta frv. Auðvitað til að afla landssjóði tekna. Ekki er það fram borið til að gera einstökum mönnum bölvun, það er af og frá. Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) hefir verið furðu seinn að átta sig á þessu máli, þar sem hann ber brtt. fram fyrst nú.