22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Eggert Pálsson:

Eftir því, sem hv. flm. brtt. (G. G.) skýrði frá, virðist mjer varhugavert að ganga til atkv. um frv. nú þegar. Hann gat þess, sem reyndar öllum er kunnugt, að vindlagerðarmaður yrði að greiða 4 kr. í toll af hverju kg af tóbaki, sem hann þyrfti til iðnar sinnar. Þar að auki 4 kr. af hverju kg. af vindlum. En það verður samtals 8 kr. tollur af hverju kg. af vindlum, sem er hið sama og þarf að greiða af innfluttum vindlum. Auk þessa þarf iðnaðarrekandinn samkvæmt 1. gr. frv. að gjalda fyrir leyfisbrjef til iðnaðarrekstrarins 100 kr. og með stimpilgjaldinu 200 kr. Sje því nú svo háttað, að í hvert kg. af vindlingum þurfi eitt kg. af tóbaki, þá er það bert, að hjer er verið að leggja hindrun í veg fyrir, að innlend vindlagerð komist á fót, og væri það illa farið að loka þannig fyrir, að iðnaður aukist í landinu. En með því að mjer og að líkindum fleiri deildarmönnum, er lítt um þetta mál kunnugt, — þá vil jeg æskja þess, að hæstv. forseti taki málið af dagskrá.