27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Magnús Torfason:

Þegar mál þetta var til umræðu síðast hjer í deildinni, gat jeg þess, að ekkert nýtt kæmi fram í þessum lögum, því hlutfallið milli tóbakstolls og vindlatolls er það sama og í lögunum frá 1917, en þá var togast um að breyta ekki hlutfallinu milli tóbakstolls og vindlatolls, því áður hafði verið verndartollur á vindlum, en hann var afnuminn 1917.

Mjer hefir skilist, að stefnan sje hin sama nú, sem sje að leggja meiri áherslu á að auka tolltekjur landsins en að láta vindlatollinn vera verndartoll til eflingar innlendum iðnaði. Og mig furðar ekki á slíkum hugsunarhætti, þegar verið er af alefli að leggja útrýmingargjöld á tilraunir manna til að afla sjer nauðsynja.

Jeg vildi geta þess, svo menn vissu, um hvað þeir eru að greiða atkvæði í máli þessu.

Jeg get tekið undir það með háttv. 4. landsk. þm. (G. G.), að mjer er ekki um að elta innlend iðnaðarfyrirtæki út í æsar, sjerstaklega meðan útgerð þeirra er ekki komin í sæmilegt horf. Fyndist mjer eðlilegra að styrkja þau, svo að þau geti staðið útlendum fyrirtækjum á sporði.