14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

49. mál, sérstakt læknishérað í Hólshreppi

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Það er nú svo um þetta frv., eins og mörg önnur, að það er hjer gamall gestur. Og það má ef til vill segja um það, eins og fleiri bænir um fjölgun lækna, að leiðir verði langþurfamenn.

En þó get jeg ekki búist við því að óreyndu, að hv. deild verði svo ósanngjörn, að gera frv. þessu sömu skil nú og tíðkast hefir um slík mál.

Jeg þarf ekki að bæta miklu við ástæður þær, sem fylgja frv., sem eru brjef frá hreppsnefndinni í Hólshreppi. Auk þess liggur frammi samþykt frá sýslunefndinni á og enn fremur frá fjölmennum þingmálafundi, sem haldinn var í Bolungarvík. Skal jeg síðar koma að því, hvað það var, sem sjerstaklega hvatti sýslunefndina til að samþykkja þetta.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um, hvernig hagar til hjer, þar sem margir hv. þm. munu vera kunnugir staðháttum, og verður því minni ástæða til að rengja það, sem sagt er í umsókn hreppsnefndarinnar.

Þess er ekki að dyljast, að þessu hjeraði er þannig í sveit komið, að oft er algerlega ómögulegt að ná til læknis, því að svo er þar brimasamt, að oft er ekki hægt að koma skipi á flot dögunum saman. Sjúklingarnir verða því að deyja drotni sínum, án þess að hægt sje að leita læknishjálpar, þar sem landvegurinn er líka oft alger ófæra og lífshætta um hann að fara, vegna snjóflóða á vetrum og skriðna og grjótflugs bæði haust og vor. Enda hafa menn líka oft farist þar.

Sjóferð eftir lækni kostar eins og tekið er fram í brjefi hreppsnefndarinnar nú orðið ekki minna en 90–120 kr., auk borgunar til læknis og lyfjabúðar.

Nú er það oft, að fátæklingar þurfa tíðara að leita læknis en aðrir, af ýmsum ástæðum, og hefir þeim þá stundum reynst ókleift að standast kostnaðinn, en það hefir orðið til þess, að sveitin hefir orðið að hlaupa undir bagga með þeim.

Hygg jeg því, að ekki geti talist rjett af löggjafarvaldinu að fresta lengur ráðstöfunum þessum, sem meðal annars geta orðið til þess að bjarga þegnfjelagslegu sjálfstæði manna og persónulegu frelsi.

Þetta voru örðugleikarnir, en þá er eftir að líta á hitt, hve mörg mannslíf geta hjer verið í veði.

Við síðasta manntal var íbúatalan um 1000, en er nú um 900. Stafar sú fækkun meðal annars af burtflutningi á sveitföstum þurfamönnum annarsstaðar, nú upp á síðkastið.

En þótt íbúatalan sje ekki hærri er 900, þá er oftast 2–300 fleira þar af fólki, og kemur það af því, að Bolungarvík er ein af stærstu veiðistöðum landsins, og streymir þangað fólk úr öllum áttum, auðvitað flest úr Ísafjarðarsýslu. Og þetta var það sem aðallega vakti fyrir sýslunefndinni, að vera með frv., að allir hreppar sýslunnar eiga þar meira eða minna af fólki.

Það má því ekki líta eingöngu á föstu íbúatöluna, heldur verður að gæta þess, að þarna er mestan hluta ársins mikill fjöldi aðkomufólks.

Það mun því ekkert of mikið fullyrt, þótt talið sje, að þar dvelji að jafnaði 1100–1200 manns.

Líti maður nú á fólksfjölda annara læknishjeraða og beri saman við fólksfjöldann í þessu læknishjeraði, þá sýnir sá samanburður, að í 11 læknishjeruðum eru færri menn en þar eru búsettir, og í 7 læknishjeruðum færri menn en vanalega eru í Bolungarvík á vertíðum vetur og vor. Jeg miða hjer við manntalið 1920, og má búast við, að síðan hafi þeim fjölgað, læknishjeruðunum, sem færri hafa íbúana en Bolungarvík, því víða hefir fólki heldur fækkað í sveitum nú upp á síðkastið, en fjölgað aftur víða annarsstaðar. Læknishjeruðin, sem jeg mintist á, get jeg talið hjer upp, því jeg hefi skrifað þau upp úr manntalinu Þau eru þessi:

1. Reykhólahjerað ..... með 594 íbúa.

2. Flateyjarhjerað ...... — 589 —

3. Bíldudalshjerað ..... — 658 —

4. Hesteyrarhjerað .... — 744 —

5. Reykjafjarðarhjerað . — 581—

6. Hólmavíkurhjerað .. — 856 —

7. Siglufjarðarhjerað . . — 654 —

8. Axarfjarðarhjerað .. — 754 —

9. Þistilfjarðarhjerað . . — 838 —

10. Vopnafjarðarhjerað .. — 742 —

11. Berufjarðarhjerað ... — 839 —

Hin 7 hjeruðin, sem jeg áður nefndi, eru þessi:

1. Síðuhjerað með 994 íbúa.

2. Flateyrarhjerað .. .. —1049 —

3. Nauteyrarhjerað...... — 985—

4. Höfðahverfishjerað . . — 965 —

5. Reykdælahjerað . . . . — 1082 —

6. Fljótsdalshjerað .... — 1071 —

7. Fáskrúðsfjarðarhjerað — 1044 —

Þessi hjeruð hafa engin meira en laust yfir 1050 íbúa, og býst jeg við, að í þeim hafi fólki fremur fækkað en fjölgað. Það má því öllum ljóst vera af þessum tölum meðal annars, að full þörf muni vera sjerstaks læknis í Bolungarvík.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er Hólshreppur hluti úr Ísafjarðarhjeraði, sem er 3. fjölmennasta læknishjeraðið á landinu, svo að þar munu nú vera fullkomlega 4000 íbúar, þar af rúm 900 eða ca. ¼ partur í Hólshreppi. Nú er því svo varið um Ísafjarðarhjerað, að það nær yfir 2 hreppa auk Ísafjarðarkaupstaðar og Hólshrepps, nefnilega Eyrarhrepp og Súðavíkurhrepp, og hluta úr Ögurhreppi. Og er sú raun á orðin, og það árlega, að þegar Bolvíkingar eða Hólshreppsmenn hafa komið eftir lækni til Ísafjarðar, þá hefir það komið fyrir, að hvorugur læknirinn hefir verið við látinn að fara, annar ef til vill í læknisferð inni í Djúpi, hinn svo önnum kafinn í kaupstaðnum, að hann hefir ekki mátt fara, svo Bolvíkingar hafa orðið að fara erindisleysu.

Jeg efast nú stórlega um það, bæði af því, hve læknishjeraðið er víðlent, og af öðrum greindum ástæðum, að eitt einasta hjerað á landinu hafi jafnmikla sanngirniskröfu til sjerstaks læknis eins og Bolungarvík. Hv. þm. vilja nú ef til vill segja, að jeg hafi ekki fært fram aðrar ástæður með þessu frv. mínu en þær, sem menn hafa áður hjer í þingsalnum heyrt kveða við undir líkum kringumstæðum. Má vera, að svo sje. En jeg hefi þá líka enn eina ástæðu fyrir rjettmæti frv., ástæðu, sem aldrei hefir heyrst hjer á þingi áður, þegar um stofnun nýs læknishjeraðs hefir verið að ræða. Undanfarin ár hefir læknisþörfin sorfið svo að þessum aumingja mönnum í Bolungarvík, að þeir hafa orðið að ráða sjerstakan lækni, að öllu launaðan á þeirra kostnað. Þetta yfirstandandi ár er lækninum greitt 3600 kr. í laun úr sveitarsjóði, auk borgunar fyrir aukaverk, sem nemur 4 kr. á hvert mannsbarn í hreppnum. En þetta hafa hreppsbúar viljað leggja á sig heldur en að standa uppi læknislausir. Þetta einsdæmi ætti síst að verða til þess að spilla fyrir þeim við hið hv. Alþingi, heldur þvert á móti til þess að opna augu hv. þm. enn betur fyrir því, hve þörfin er afskaplega brýn fyrir sjerstakan lækni. Þessar tölur tala hjer máli þessa hjeraðs miklu betur en nokkur ræðumaður getur gert á þingi.

Jeg skal taka fram með þakklæti, að hv. Alþingi hefir undanfarið veitt 500 kr. á ári til læknishjálpar í Bolungarvík, en eins og menn sjá, nær sá styrkur skamt. Jeg skal líka geta þess með þakklæti að stjórnin sendi sjerstakan lækni til Bolungarvíkur í inflúensunni síðastliðinn vetur. Það var vel gert, en því miður kom hjálpin af seint. Mörg dauðsföll orðin þegar læknirinn kom, en ómögulegt að ná til læknis frá Ísafirði, þar sem báðir læknarnir þar lágu. Hefði læknir verið fyrir í Bolungarvík, hefði aldrei komið til, að slíks hefði þurft.

Nú má enn fremur benda á það, að í verstöð, eins og Bolungarvík, þar sem margt fólk safnast saman við ljelegan útbúnað, er miklu kvillasamara en í sveitum. Auk þess er þar miklu hættara við slysum, og þau alltíð í Bolungarvík, án þess stundum að nokkuð sje hægt við að gera. Það er t. d. ekki mjög langt síðan maður varð undir mótorbát í Bolungarvík: hann kramdist stórkostlega og dó, án þess að náð yrði til læknis nógu fljótt.

Jeg hefi aldrei verið mikið gefinn fyrir að flytja mál hjer á þingi, sem auka ríkissjóði útgjöld, en þegar málin eru svona vaxin, þá vil jeg láta gera undantekningar. Og jeg álít, að þingið geti naumast verið þekt fyrir að láta neyðina þrengja svo að þessum mönnum að þeir leggi á sig afarháan nefskatt til þess að gera það sjálfir, sem ríkið á að gera til þess að tryggja líf og heilsu þarna. Jeg vil svo enda mál mitt með þeirri ósk, að hv. deild taki málin vel, og vona, að hv. deild og hæstv. stjórn láti það ekki gjalda þess, þó að þm. N.-Ísf. sje kann ske ekki vel sjeður hjá þeim.