06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

49. mál, sérstakt læknishérað í Hólshreppi

Sigurður Stefánsson:

Frv. þetta hefir verið lengi á leiðinni, þótt lítið sje. Jeg get samt verið þakklátur meiri hluta allsherjarnefndar fyrir að leggja það til, að frv. verði samþykt. Hann hefir auðsjáanlega tekið þær hinar brýnu ástæður til greina, sem bornar voru fram fyrir þessari beiðni. Jeg þarf ekki heldur að vera hinum nefndarhlutunum vanþakklátur. Þeir hafa viðurkent nauðsynina á þessu, þótt þeir vilji fara aðra leið en meiri hlutinn.

Minni hlutinn er tvískiftur, vill annar hl., hv. þm. Borgf. (P. O.), hlaupa hjer undir bagga með 1500 kr. styrk, en hinn, hv. 2. þm. Árn. (E. A.), leggur til, að veittur sje 3000 kr. styrkur. En eftir till. minni hlutans jafnast hvorug upphæðin við það, sem Hólshreppur geldur nú fyrir læknishjálp. Þótt hærri upphæðin væri veitt, þyrfti Hólshreppur að gjalda 600 kr. til þess að geta haldið samninga sína við hinn núverandi lækni, en samkvæmt lægri upphæðinni 2100 kr.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en vona hins vegar, að deildin líti með sanngirni á þetta mál, því að hjer er um brýna lífsnauðsyn að ræða. Og þó að þingið verði svo ósanngjarnt, að sýna hjer enga linkind, þá munu Hólshreppingar samt halda áfram með að fá lækni, því að það, að þeir sjeu læknislausir, er í mörgum tilfellum sama sem að þeir sjeu líflausir.

Jeg vona því, að háttv. deild taki þessu nauðsynjamáli vel og samþ. frv.