25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þórarinn Jónsson:

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) taldi, að tillaga samgöngumálanefndar um að veita Eimskipafjelagi Suðurlands styrk, til að halda uppi ferðum til Vesturlands og fram með Suðurlandsströndinni, mætti skoðast þannig, að með þessu ætti að vekja samkepni við fjelag Þorsteins Jónssonar. Þetta er ekki rjett athugað, þar sem hans skip á að ganga með fram Norður- og Austurlandi, en ætlast er til, að hitt skipið gangi fram með Suður- og Austurlandi.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var óánægður yfir athugasemdinni, sem samgöngumálanefnd vill bæta við styrkveitingarskilyrðin til fjelags Þorsteins Jónssonar. Hún byggist á því, að nefndin er á því, að ferðirnar til Norðurlandsins megi á engan hátt bregðast, og að sjerstaklega þurfi að vanda skip til þeirra. Vill hún með athugasemdinni brýna þetta fyrir stjórninni, því frekari ástæða var til að minna á þetta, sem skip mun enn ófengið til ferðanna. Þetta má því skoða sem bending til stjórnarinnar, en ekki sem vantraust á Þorsteini Jónssyni. Tel jeg það á engan hátt geta talist nefndinni til vansæmdar, þótt hún vilji tryggja ferðir þessar sem best.

Það hefir altaf verið nokkur ágreiningur út af Suðurlandi og styrkveitingunni til þess í samgöngumálanefndinni, og er svo enn. Nokkur hluti nefndarinnar var ófús á að samþ., að styrkurinn væri tiltölulega hærri en til hins skipsins. Nú er svo áætlað, að skip Þorsteins Jónssonar sje 200 daga í strandferðum og verði styrkt með 100.000 kr. Suðurland er gert ráð fyrir að fari strandferðir í 70 daga, og ætti það því að fá 35,000 kr. styrk, að rjettri tiltölu við hitt. Þannig taldi og minni hluti nefndarinnar rjettast, að styrkurinn væri ákveðinn, en vildi þó ekki gera beinan ágreining út af því.

Jeg gæti fallist á till. hv. þm. S.-Þ. (P. J) ef svo væri tilskilið, að stjórnin veitti Eimskipafjelagi Suðurlands tiltölulegan styrk við það, sem hinu fjelaginu er veittur, en hærri ekki. Eftir því, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir skýrt frá, er skipið Suðurland gamalt og nokkuð kolafrekt: eru það ekki meðmæli með því, en getur hins vegar orðið því valdandi, að það þurfi hærri styrk, til þess að ferðir þess borgi sig. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) taldi styrk þann, er lagt er til að veittur sje Eimskipafjelagi Suðurlands eigi of háan, og bar þar fyrir sig forstjóra Eimskipafjelags Íslands, og bar hann saman við styrk þann, sem áætlaður er handa Sterling. Styrkurinn til Sterling var ákveðinn með samráði við sama mann, og miðaður við það, að ágóði mundi verða af ferðum skipsins til útlanda.

En jeg þarf ekki að taka það fram, að jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje á móti þessu skipi, síst af því, að jeg sje á móti því, að greiða sem best fyrir samgöngunum kringum land.

En jeg vil ekki, að þessu fjelagi sje gert hærra undir höfði en öðrum með styrkinn, og þar sem talað var um það, hve marga farþega skipið gæti tekið, þótti mjer fulllangt gengið.

Jeg hefi sjeð skipið, og jeg get ekki trúað, að það geti flutt svo marga farþega á þilfari, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) gat um.

Þá spurði hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um það, hvort svo mundi eiga að líta á, sem áætlunin væri samþ. með fjárlögunum. Áður hefir það verið svo, að þingið hefir ekki samþ. þessar áætlanir sjerstaklega, og mun verða svo enn. Venjan hefir verið sú, að þingið hefir gert þær og eftir þeim hefir verið farið. Það má því líta svo á, að áætlun þessi sje samþ. með fjárlögunum, þar sem þingið hefir gert hana, engu síður en áætlunina fyrir Sterling.

Þá sagði hæstv. forsætisráðh. (J. M.) einnig, að rjettast væri að ganga frá þessu með samningum. Það er alveg rjett, og það er stjórninni innan handar að gera þá samninga.

Hingað til hefir af þinginu að eins verið ákveðinn styrkurinn til strandferðabáta og stjórnin síðan ráðið, hvernig honum var varið. Og þessu vildi samgöngumálanefndin ekki breyta. Það er því stjórnin, sem gera á þessa samninga.

En þótt gerðir hafi verið samningar við Thorefjelagið, þá er það alt öðru máli að gegna, þar sem það er útlent fjelag. En það er síður en svo, að samgöngumálanefndin sje því mótfallin, að stjórnin geri samninga um þessi atriði. Nefndin telur það meira að segja sjálfsagt, að samningar verði gerðir við hvert af þessum fjelögum.

Jeg hefi svo ekki fleira að taka fram, en eftir afstöðu minni í nefndinni býst jeg við að greiða atkv. með till. háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), þar sem komið er á samræmi í styrkveitingum þessum með henni.