01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg skal leyfa mjer að endurtaka orð mín, sem jeg sagði í þingbyrjun, að íslenskt loft væri þrungið af viðfangsefnum, sem bíða lausnar og þola enga bið.

Mest auðæfi landsins eru fólgin í sjónum með fram ströndum landsins. Raunar er menn nú farið að dreyma um fossana, en það er meira í fjarsýn, og óvíst, hversu mikil heill landinu kann að standa af því að styðja þau viðfangsefni, sem sumir tengja við fossana. En hitt er vitanlegt, að mestu máli skiftir fyrir efnahag landsins, að auðæfi sjávarins komi að því gagni, sem þau eiga að gera. Af aðalatvinnuvegum landsins er sjávarútvegurinn sú grein sem mest ríður á að sem best sje borgið með því að hann ber mest og hefir mest burðarþol til þess að standast þarfir landsins.

Það er alkunna að hætta vofir yfir þessum atvinnuvegi, eins og drepið er á í nál.

Þessi hætta er svo mikil, að sjómenn hafa árum saman lagt á sig miklar byrðar til þess að tálma henni, og er það ljós vottur þess, hve miklu máli þeim þykir skifta þetta atriði. Aldrei hefir mönnum veist betra tækifæri til þess að sannfærast um þetta en á þessum síðustu árum, stríðsárunum. Þau árin hafa verið óminnileg aflaár í flestum veiðistöðum landsins, en nú, jafnskjótt sem hin útlendu fiskiskip eru farin að sækja að landinu, þykjast menn þegar vera farnir að finna áhrif þeirra, þannig að nú á útlíðandi sumri er fiski tekið að þverra, og segja kunnugir, að það stafi beint af því, að hinum útlenda skipastól hefir fjölgað.

Alþingi hefir ekki áður dulist það, hverja þörf sje hjer um að ræða, því að það hefir stofnað sjerstakan sjóð til þess að verjast þessari hættu, landhelgissjóðinn. Hugsuðu menn sjer þá, að beðið yrði þangað til sjóði þessum yxi svo fiskur um hrygg, að hann gæti sjálfur kostað varnirnar. En nú er svo komið, að sjávarútvegsnefndir beggja deilda telja ekki hægt að bíða og ekki annað fært, þótt margt annað kalli að, en að koma nú fram með þetta frv. með því að svo geti farið, að á næsta einu, tveim eða þrem árum verði sjávarútvegurinn fyrir þeim skakkaföllum, að stórt skarð verði höggvið í það, sem þessi atvinnuvegur leggur til landsins þarfa.

Greinargerð frv. sýnir það, að sumir nefndarmanna telja máli þessu ekki hrundið í rjett horf fyr en við höfum tekið alla landhelgisvöru í hendur vorar, þótt nefndin viðurkenni, að nokkur bót væri í þeirri vörn, sem Danir hafa skuldbundið sig til að halda hjer. En það varð úr, að ekki var lengra farið í þetta sinn en svo, að leggja til, að eitt skip væri gert út til varnar, en það var talið alveg óhjákvæmilegt, þótt hins vegar væri játað, að fjárhagur vor væri erfiður til að ráðast í svo mikið.

Nefndin hefir í greinargerðinni sett áætlun um rekstrarkostnað og miðað við nútímaverð.

Sjálft skipið mundi kosta 500–600 þús. kr., en landvarnarsjóðir er orðinn um 150 þús. kr.

Jeg leyfi mjer, fyrir hönd nefndarinnar og fyrir hönd allra þeirra, er stunda þessa þýðingarmiklu atvinnugrein — sjávarútveginn — að óska þess, að hv. deild samþykki frv.