25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg gaf að eins lauslega skýrslu um skip þetta áðan. En þar sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) taldi það efasamt, að það rúmaði svo marga farþega sem jeg sagði, skal jeg lesa upp þýðingu á kafla úr brjefi því, sem jeg hefi nýfengið frá framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins. Hann segir svo:

,,Skipið hefir milliþiljur, og er vel hæft til þess að hafa 150 farþega milli þilja. Það hefir eitt herbergi fyrir konur, sem rúmar 6 konur, og auk þess ýms herbergi með rúmum, og ágæta afturkáetu með góðum legubekkjum.

Þetta til samans er svefnrými fyrir 32 farþega á 1. farrými. Á þilfari er góður reykingasalur.

Fyrir utan 1. farrými er lítið 2. farrými frammi í skipinu, sem hefir verið minkað til að auka farmrýmið, en það má stækka aftur. Á efstu þiljum eru setubekkir. Það hefir raflýsingu í besta lagi og getur brotið ís og er 1. flokks skip“.

Þetta segir hann inn skipið. Auk þess segir hann það bygt árið 1891 og hefir það síðan siglt með póst og farþega milli Borgundarhólms og Kaupmannahafnar. En það er vondur sjór og krappur og hættulegur jafnvel stærri skipum.

En þetta skip hefir reynst þar ágætlega. En hann telur rjett að loka hlerunum beggja megin eða taka þá alveg burtu.

Svo endar hann með því, að hann telji Suðurland mjög hentugt skip til þessara strandferða, að minsta kosti þangað til stærra skip verður til þeirra fengið.

Þetta er vitnisburður þessa manns, sem sjálfsagt enginn getur efast um að sje rjettur. Og hann hefir sagt það, að ef skipið fari þær ferðir, sem nú eru áætlaðar, þá sjeu 50,000 kr. alls ekki of hár styrkur. Skipinu væri þá betra að sigla óbundið, því að það er mikill munur á, hvort siglt er eftir áætlun eða að eins það, sem best hentar í hvert sinn.

Og ef Norðurlandsskipið verður eins gott farþegaskip, þá er styrkurinn til þess of lítill. En sje það að eins eitthvað, sem slegið er upp til bráðabirgða, þá er öðru máli að gegna.

Og nú er því svo farið að þetta skip vita menn um en hitt ekki. En verði það 250 tons netto og vel útbúið að öllu leyti, þá er styrkurinn lítill, og jeg kalla það vel gert, ef öll skilyrði verða uppfylt.

En jeg sje ekki neina ástæðu til þess að veita meira en um er beðið. Og þetta er þegar afgert.

En að veita hjer að eins 35.000 kr. tel jeg mjög vafasamt. þar sem óvíst er, að fjelagið geti gengið að því.

Jeg fyrir mitt leyti treysti því, að það sje rjett sem framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins segir að 50,000 kr. sje alls ekki of mikið og fjelagið muni ekki geta gengið að minna.

En um brtt. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) skal jeg segja það, að jeg get vel felt mig við hana.