01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

140. mál, landhelgisvörn

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst kenna nokkurs misskilnings hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.) á frv.

Í því er ekki farið fram á, að stjórnin geri neitt kraftaverk.

Jeg lít svo á, að í frv. liggi ekki annað en það, að stjórnin athugi, hvort ekki muni kostur á að fá leigt skip, sem bjargast megi við til að bæta landhelgisvarnirnar eða ef það reynist óframkvæmanlegt. Þá að taka á leigu skip, sem bjargast mætti við til bráðabirgða í því sama skyni. (Forsætisráðherra: Þetta stendur ekki í frv.). (K. E.: Kaupa og leigja er það sama.). Þó það ef til vill geti verið tvírætt í frv., kemur það skýrt fram í greinargerðinni. (Forsætisráðherra: Ef þessi skilningur er rjettur, hefði jeg aldrei talað móti frv.).

Jeg hefi aldrei ætlast til, að annað lægi í frv.

En til hins er einnig ætlast, að stjórnin rannsaki, hvort ókleift muni seinna að kaupa slíkt skip.

Er ekki óhugsandi, að eitthvert útgerðarfjelagið hjer gæti leigt slíkt skip á vetrarvertíðinni, þegar nauðsynin er bráðust.

Aðalvandinn mun verða að útvega góðan skipstjóra, og auk þess verður að undirbúa málið í samvinnu við utanríkisráðuneytið, svo ekkert rekist á.

Svona hefi jeg litið á málið og býst við, að samnefndarmenn mínir hafi gert það á sama hátt. Vona jeg, að þetta geti gengið sem fljótast fyrir sig, því tjónið verður því minna, sem drátturinn er minni.

Fyrir mjer er ekkert aðalatriði, að strax sje hægt að hafa fullkomið skip, er sje fært um að elta útlenda lögbrjóta út fyrir landhelgi og handsama þá í hafi.

Hitt er meira um vert, að útlend fiskiskip viti, að haft er auga með þeim, og hægt sje að sanna, ef þau seilast inn í landhelgi.

Sömuleiðis er mikið í það varið, að veiðarfæra landsmanna sje gætt, svo sjávarútvegurinn verði ekki fyrir öðru eins stórtjóni á veiðarfærum af hendi lögbrjóta og átt hefir sjer stað undanfarin ár.

Jeg skal ekki fara frekar út í þetta enda lofaði jeg að vera stuttorður.

Vona jeg, að hv. þm. sje ljóst, að hjer er um 2 atriði að ræða, sem athuga verður sitt í hvoru lagi. (G. G.: Það er ekki í frv.). Þetta liggur í frv., og er auðsjeð, ef menn vilja lesa frv. með velvilja.

Áður en jeg sest niður, verð jeg að víkja að einu atriði í ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.), þar sem hann hálfhneykslaðist á því, að nefndin hefði talið eðlilegt, að eftirlitið með landhelgisvörninni væri slælegt. Hv. þm. (M. T.) hefir ekki lesið nógu langt í greinargerðinni, því þar stendur: ,,En hitt er jafnkunnugt, að sú vörn (þ. e. sem Danir eiga að halda uppi samkvæmt sambandslögunum) er allsendis ónóg og að miklu leyti sama sem engin vörn ....“