08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg vildi geta þess, viðvíkjandi því, hvort rjettara væri, að þetta mál gengi fram í tillöguformi eða frumvarps, að meiri hluti nefndarinnar áleit, að það gæti dregist lengur ef það væri sem tillaga.

(J. M.), að nefndin gerði sjer alt far um að leita sem bestra upplýsinga. Að því er snertir kostnaðinn, þá er jeg ekki í vafa um, að hann verður meiri en áætlað er. Jeg er þannig sammála hæstv. ráðherra um, að ekki er gert ráð fyrir nægu fólki á þetta skip, og heldur ekki hvað útbúnað snertir. Það mundi því leiða af sjer aukinn kostnað. En hjer er líka mikið í húfi og mikið skal til mikils vinna Þetta er útvegur, sem gefur landinu einna mestar tekjur.

Um það, hvort kaupa eigi skip eða láta byggja get jeg sagt fyrir hönd sjávarútvegsnefnda beggja deilda, að þær álíta, að eigi að smíða skipið. Jeg efast um að það verði dýrara en botnvörpungur. Það er aðgætandi, að þetta skip þarf ekki lestarrúm. Og það mun varla verða dýrara að útbúa það með þægindum fyrir skipshöfnina heldur en gera það út til fiskiveiða. Jeg tel, að búast megi við, að það kosti 6–700 þús. kr. Jeg álít vafalaust óhætt að fullyrða, að þetta muni borga sig bæði beint og óbeint. Það fæst talsvert mikið í sektir. En aðalhagnaðurinn verður auðvitað sá, að landsmenn fá mikið betri afla.

Þó að nefndir beggja deilda óski auðvitað, að þetta komist sem fyrst í framkvæmd, þá er vitanlega betra en ekki að skora á stjórnina að undirbúa málið og leggja það fyrir næsta þing. Að vísu má vera að stjórninni þyki þetta nokkuð stuttur tími, en ef áhuginn og viljinn er nógur, eins og jeg held að sje hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), þá getur það vafalaust tekist. Jeg legg það alveg á vald hv. deildar, hvort henni finst rjettara, að leiða málið til lykta með tillögu, eða með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og jeg fyrir mitt leyti fellst á. Því þótt í einhverju kunni að verða áfátt undirbúningi málsins fyrsta árið með mannafla eða annað, þá má altaf lagfæra það. Enn fremur álít jeg að þó að áætlun nefndarinnar skeiki eitthvað, þá ætti það ekki að verða til þess að hindra framgang málsins. Það mætti auk þess lagfæra það fyrir 3. umr.