08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er ekki að búast við, að neinar frekari upplýsingar komi frá stjórninni. Jeg hygg, að nefndin hafi aflað sjer allra þeirra upplýsinga, sem hægt var að fá hjer heima. En jeg er ekki viss um, að landvarnirnar eigi að vera með þessu fyrirkomulagi. Jeg álít, að vel geti komið til mála að hafa minni skip, en fleiri. Það hagar svo til hjer, að það þarf að vernda einstaka flóa. T. d. mun síður vera þörf á að hafa varnarskip fyrir Suðurlandi en annarsstaðar. Þetta er svo, eftir þeim kærum, sem stjórninni hafa borist árum saman, að það eru einkum einstakir flóar og mið, sem þarf að verja. Svo að sumsstaðar gætu jafnvel nokkuð smáir bátar komið að notum. Jeg held, að sumsstaðar annarsstaðar, t. d. í Ameríku, sjeu alment notaðir smærri bátar, og hafi komið að fullum notum.

Jeg held auk þessa, að það þurfi að ákveða nákvæmlega, hvernig landhelgin skuli vera.

Verði þetta frv. ekki samþykt, sem jeg tel gálaust að gera, þá ætti stjórnin að leita skýrslna, sem allra fyrst, um málið, og leggja það síðan fyrir næsta þing. Jeg vil endilega, að ekki sje hrapað að málinu nú á þessu þingi. En hitt er ekki nema gott og sjálfsagt, að samþykkja frv. í hv. Ed., til þess að sýna viljann í málinu, og láta það ganga til 2. umr. hjer í hv. deild. En hitt er eins víst, að full nauðsyn er á, að sinna málinu. Það hafa nýlega komið umkvartanir frá Suðurnesjum um yfirgang botnvörpunga þar, bæði innlendra og útlendra. Og hefir stjórnin gert ráðstafanir til þess, að annar varðbáturinn frá Siglufirði fari þangað.