08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

140. mál, landhelgisvörn

Bjarni Jónsson:

Jeg vil nú ekki, þótt sett sjeu lög um þessi efni, að framkvæmdir verði svo bráðar, að hæstv. stjórn geti ekki sjeð fótum sínum forráð. Það er engin skylda að byggja skip eða kaupa, hvernig sem á stendur, og hve dýrt sem það er. Það stendur í frv., að stjórnin megi leigja skip til þessara hluta, meðan hún lætur byggja skip. Og ekki eru henni sett nein takmörk um, hve lengi megi á þessum framkvæmdum standa. Eftir því, sem hv. þingmenn annars líta á hlutina, munu þeir þola við, þótt gætt sje hófs og aðgætni í þessum framkvæmdum.

Sje jeg því enga hættu frá þessu sjónarmiði.

Frá kostnaðarins sjónarmiði vil jeg minna á, að þótt ekki sje tekin nema 1 grein sjávarútvegsins, síldarútvegurinn, mun það sjást, að annað eins úthald og þetta, sem ætla má að kosti 300 þús. kr., er ekkert voðalegt, er gætt er þeirra hagsmuna, sem hlotnast landssjóði af þessari einu útvegsgrein. Nú tekur landssjóður 3 kr. af hverri tunnu síldar, og gefa þá 100 þús. tunnur þennan útgerðarkostnað. Hvað sem veiðist meira, þá gefur þetta eina álag afgang af þessari hjálp, sem útveginum er veitt. Segjum, að þetta skip sje haft til að verja landhelgina vegna síldveiðinnar einnar, svo að landsmenn geti veitt síld í næði á þeim vettvangi, sem þeir hafa rjett til að vera, og síldveiðin komist fyrir það upp í 200 þús. tunnur eða meira. Þá verður ærinn gróði á þessu fyrirtæki.

Það mun alveg rjett vera, að víða sje gert meira úr gildi þessara strandvarna en rjett sje, þar sem mörg fiskimið sjeu utan landhelginnar. En ekki mun of mikið úr því gert t. d. í Vestmannaeyjum, sem liggja í opnu hafi, og mörg fiskimiðin eru í landhelgi. Og eins eru þar mikil fiskimið í álnum milli lands og eyja. Þegar veiði er ekki spilt af botnvörpungum, má veiða svo mikinn fisk í þeim ál, að miklu meiru nemi tekjurnar en útgerðarkostnaður varðskipsins. Og það fyrir það eitt, að fiskimiðin eru varin.

Þótt því ekki sje tekið tillit til neins nema þeirra tekna, er fást með því að verja fiskimiðin við Vestmannaeyjar og síldarmiðin, þá er auðsær mikill gróði, þótt ekki sjeu reiknaðar neinar sektir með.

Hvað fjárhagnum viðvíkur, þá held jeg, að það sje varla vert til að bæta fjárhaginn að spilla fyrir verndun atvinnuveganna. Þá fjármálaspeki skil jeg ekki. Alt þetta tal um fjárhaginn er vitleysa ein. Þó fjárhæð sje nú hærri en áður var, er eigi verðmætið meira. Það ætti að vera innan skynsemistakmarka þingsins að sjá og skilja, að landsjóður þarf nú að gjalda fleiri krónur en áður, og jafnframt að fá fleiri krónur í tekjur en áður. Jeg segi, að það ætti að vera innan skynsemistakmarka þingsins að skilja þetta og gera ráðstafanir til að sjá við því, að þessi halli í fjárhagnum sje ekki til. Jeg hefi áður bent á, hvernig fara eigi að því. Er það með því móti, er almenn skynsemi sjer og vil jeg ekki endurtaka það hjer.

Þar sem sumir vilja láta sjer nægja að vísa málinu til stjórnarinnar, til þess að afla nægilegra upplýsinga um „kostnað og tilhögun alla“, o. s. frv., þá er það alþekt aðferð að drepa mál. Það er margföld reynsla, að stjórnin útvegar aldrei þessar „upplýsingar.“ Jeg skal minna á tillögu þá um skólamál, sem til hennar var vísað í fyrra. Nú kemur fram samskonar till. og áður, vegna þess, að stjórnin hefir ekkert gert.

Hæstv. þm. S. Þ. (P. J.) (þetta er líklega fyrirboði!) var sjerstaklega tregur til að afgreiða þetta mál frá þinginu vegna þess, að hann vissi ekki, hver yrði í stjórn. En er hann þá vissari um, að þessi óþekta stjórn verði fremur samviskusöm í rannsókn málsins en framkvæmd þess. Ef við vitum eigi, hver stjórn tekur við, þá er best að hafa búinn einhvern spora síðu henni, og frv. þetta er góður spori á hana í þessu máli. Ef hv. þm sjálfur (P. J.) skyldi lenda í stjórn, þá er því um síður ástæða fyrir hann að treysta þeirri óþektu stjórn. En sá, sem ekki þorir að trúa óþektri stjórn fyrir framkvæmd málsins, getur eigi heldur trúað henni fyrir því að útvega upplýsingar. Jeg hefi heldur eigi heyrt neitt um það, að þessi stjórn, sem nú situr, fari frá völdum. Það er heldur ekki hægt að fella hana, því að hún hefir þegar felt sig sjálf. Hún getur því orðið eilíf stjórn. Og stjórnin veit þetta sjálf. Hún myndi eigi mæla svo móti þessu, ef hún vissi það ekki sjálf.