08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

140. mál, landhelgisvörn

Hákon Kristófersson:

Jafnvel þótt jeg geti fallist á það, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að mál þetta sje ekki vel undirbúið að sumu leyti, þá er jeg eigi sammála honum um það, að fyrir því sje varhugavert, að frv. þetta nái fram að ganga. Jeg sje ekki betur en að frv. sje svo rúmt, að hæstv. stjórn sjeu þar ekki settar neinar fæstar skorður. Má sjá það á orðum frv., „svo fljótt sem verða má“.

Í frv. þessu er því einu haldið fram, að þessu mikla nauðsynjamáli sje sýndur sá sómi, að hraða því sem mest að hægt er, en ekki því, að flýta málinu um skör fram.

Menn þurfa ekki að ganga þess duldir, að eigi að eins þeir, er sjávarútveg stunda, heldur og góðir menn um land alt, vænta þess, að nú sje stigið svo stórt spor í ráðstöfunum í þessa átt, að reynt sje að stemma stigu fyrir að öllu eða mestu leyti hamförum og gripdeildum þessara útlendu ræningja á fiskimiðum vorum.

Þess er ekki að dyljast, að nú undanfarinn tíma, og síðast í sumar, hafa allir firðir og flóar verið fullir af fiski. Hefir það verið svo stórkostleg hjálp nú í dýrtíðinni, að fæstir munu vera menn til þess að sýna það reikningslega.

Jeg get tekið undir það með hv þm. Borgf. (P. O.), að það er alls ekki rjett, að útlend skip sjeu ekki þegar farin að koma til landsins. Þau eru nú þegar farin að hafa í frammi töluverða ásælni. Og á Íslandi hafa jafnvel fundist þeir óþokkar og lítilmenni, sem leigja sig til að vera fiskisnuðrarar þessara útlendinga, vísa þeim á bestu fiskimið vor.

Jeg skal alls ekki gera lítið úr ræðu hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um þetta mál. Hann talaði mjög varlega, eins og hans er venja í hvívetna og frá fjárhagslegu sjónarmiði. En einnig frá fjárhagslegu sjónarmiði lít jeg nokkuð öðrum augum á þetta en hann. Jeg get ekki verið honum sammála um, að það sje gróði að draga mál þetta á langinn. Jeg hefi þá skoðun, að af þeirri bið geti leitt að framkvæmdir verði engar, og með því sje stofnað til þeirra skemda er ómögulegt sje að fá bætt úr.

Verð jeg því að leggja harðlega á móti því, að dagskrá hans nái fram að ganga, eða nokkur önnur í líkum anda Vænti jeg að á þessu þingi verði gerðar þær nauðsynlegar ráðstafanir, sem duga, og þótt það yrði til þess, að aukaskattur yrði lagður á þjóðina, þá er jeg viss um, að sá skattur mundi verða vinsæll, jafnvel þótt hann væri lagður á hvern róðrarbát og hverja skútu. Þá mundu allir þeir, er hlut ættu að máli, ekki undan því kvarta, ef árangurinn yrði sá, að þeir í framtíðinni mættu, eins og nú undanfarin ár, vera óáreittir á hinum aflasælu fiskimiðum okkar. En verði nú beðið eftir því, að útlendir og ef til vill innlendir yfirgangsmenn fari sínu fram, þá er hætt við, að um okkur mætti segja, að við hefðum sparað aurana, en kastað krónunum.

Vænti jeg, að hv. deild sjái svo sóma sinn, að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.