08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Það er út af misskilningnum milli hv. deildarmanna og hæstv. forsætisráðherra, að jeg vil segja nokkur orð. Vil jeg þá lýsa því yfir, að mjer finst skilningur hæstv. forsætisráðh. vera alveg rjettur. Frv. skipar að kaupa skip, eða þá að láta byggja skip, eða þá að leigja það, meðan verið er að byggja skip, og nefndin ætlast til, að skipið verði komið 1920. Hitt er annað mál, ef í móti blæs þessu frv., hvort þá er ekki rjett að fara einhvern milliveg. Vona jeg því, að háttv. deildarmenn leyfi málinu að fara til annarar umræðu, og gæti þá kann ske komist á samkomulag milli nefndarinnar og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) (B. J.: Frv. er ekki í neinni hættu). Það hefir heldur enginn sagt.

Menn hafa nú falið stjórninni ýmislegt, svo sem að útvega lán til brúa og vegagerða, og finst mjer þó, að sá hlutur eigi að ganga fyrir öllu, sem gefur af sjer beinan arð. (M. P.: Brýr og vegir gefa af sjer). Brýr og vegir gefa ekki af sjer beinlínis, því að engar tekjur koma beint af þeim í landssjóð, en af þessu koma beinar tekjur í landssjóð.