10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem jeg sagði um mál þetta við 1. umr.

Nauðsyn þá, sem á því er, kemur öllum saman um.

Það er því aðallega fjárspurningin, sem um er að ræða.

En eins og jeg sagði, kostar þetta mjög mikið, en mikið skal til mikils vinna, og hjer er um það að ræða að vernda einn stærsta atvinnuveg landsins frá þeirri hættu, sem hann hefir verið í áður, og ef til vill frá enn meiri hættu.

Hjer verður því ekki hjá því komist að gera eitthvað, og ekki má í það horfa að kosta nokkru til.

Vörn sú, sem hingað til hefir verið, hefir reynst ónóg, sem von er, því að fiskiveiðasvæðin eru svo stór, að eitt skip getur ekki annað vörninni, hversu vel sem á er haldið.

Það er satt, að kostnaðaráætlunin er há, og þó ef til vill ekki nógu há, en hins ber að gæta, að búast má við, að nokkuð komi upp í þann kostnað af sektunum auk hins óbeina aðalgagns af vörnunum, sem getur orðið ómetanlega mikið.

Það hefir komið fram brtt., á þgskj. 755, við frv. þetta, frá hv. þm. Stranda (M. P.).

Fer hún fram á það, að í stað þess, sem í frv. stendur, að stjórnin skuli láta byggja skip o. s. frv., þá er henni hjer veitt heimild til að láta gera það.

Annars treysti jeg því, að stjórnin geri þegar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að koma þessu máli sem fljótast í kring, því sjávarútveginum ríður á að það sje ekki tafið. Og best væri, ef hægt yrði að byggja skip fyrir næstu vetrarvertíð.