10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

140. mál, landhelgisvörn

Magnús Pjetursson:

Út af orðræðum þeim, sem fram fóru hjer í deildinni við 1. umr. um þetta frv., datt mjer í hug að koma með brtt. við 1. gr., og er hana að finna á þgskj. 755. En jeg skal taka það strax fram, að jeg efast um, að hv. sjávarútvegsnefnd hafi meiri áhuga fyrir, að málið komist sem fyrst í framkvæmd, en jeg. Brtt. mín er fyrst og fremst fram komin vegna þess, að það er óvanalegt og nýstárlegt að orða till. eða frv. þannig, að stjórnin skuli framkvæma það, sem fyrir hana er lagt, hvort sem hún getur eða ekki, því svo ber helst að skilja frv. Svo er annað, sem mælir með brtt. minni, og það er það, að málið er ekki svo rannsakað enn, að fenginn sje óyggjandi úrskurður um, hvort heppilegast sje, að skipið sje að eins eitt. Það er þvert á móti talsvert vafamál að svo sje, og þess vegna stendur í minni till., að stjórninni heimilist að láta byggja ,,eitt eða fleiri skip“, eftir því sem hún telur hagkvæmast, eftir að hún hefir látið athuga málið nægilega.

Það ríður vitanlega á því að koma þessu máli fram sem fyrst, en kapp er best með forsjá, og það má ekki skipa stjórninni að kaupa eða láta byggja landvarnarskip án forsjár og að óathuguðu máli. Ef illa fer, getur stjórnin kent þinginu um það. En hún hefir ríkari ábyrgðartilfinningu fyrir því, sem hún á að gera, ef orðalagið er að eins sem heimild, en ekki skylda, hvernig sem á stendur. Því í frv. liggur óbeinlínis skipun um að kaupa skipið fyrir næsta þing. Mjer heyrðist jafnvel á frsm., að hann byggist við skipinu fyrir næstu vetrarvertíð. Getur það auðvitað komið til mála þannig, að leigt sje skip, því þetta álít jeg alt of lítinn undirbúningstíma til þess, að hægt verði að ætlast til af stjórninni, að hún hafi keypt skip, eða látið byggja, í svo skjótri svipan.