10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

140. mál, landhelgisvörn

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Mjer þykir vænt um að heyra, að flm. brtt. hefir lýst því yfir, að hann hafi sama áhuga á málinu og sjávarútvegsnefnd.

Hann álítur, að leigja eigi skip nú þegar, en jeg veit ekki til, að nokkur hafi æskt þess nú þegar, heldur er mest þörfin á slíku skipi á vetrarvertíðinni. En jeg held fast við það, að þing og stjórn megi alls ekki láta dragast neitt að láta byggja skipið. Á því verður að byrja sem fyrst, en þangað til á stjórnin að hafa heimild til að leigja.

Það er alls ekki svo, að við viljum skipa stjórninni að kaupa hvaða skip sem er. Það á auðvitað ekki að kaupa nema hæft skip, og það hefir nefndin hugsað sjer frá því fyrsta.