10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

140. mál, landhelgisvörn

Magnús Pjetursson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, að nefndin bæri það traust til stjórnarinnar, að hún keypti ekki skip, nema það væri í alla staði forsvaranlegt. En þó að nefndin beri traust til stjórnarinnar í þessu efni, þá treystir hún henni þó ekki til að framfylgja þessu, nema harðara sje til orða tekið. En jeg hygg, að þeir ættu að treysta henni eins vel að því er snertir að framfylgja málinu, þó að eins sje heimild, en ekki skipun.

En í sambandi við það atriði, að ekki væri fyllilega rannsakað, hvort betra væri, 1 stórt skip eða fleiri smá, sagði hann, að reyndin hefði sýnt, að mótorbátar hefðu reynst ónógir. Sú reynsla er ef til vill fengin hjer með smámótorbáta, en ekki með stærri báta, eins og notaðir hafa verið annarsstaðar. Það hefir verið bent á, að einhver best vörn gegn kafbátunum hafi einmitt verið mótorbátar, og botnvörpungar eru ekki verri viðureignar en þeir. Og hver veit, nema til sjeu ýmsar smærri tegundir skipa, sem gerð hafa verið í ófriðnum og við þekkjum ekki, en hentugust kynnu að þykja. Mjer finst því eðlilegast, að gerður sje út maður til þess að rannsaka þetta, eftir reynslu annara þjóða.