13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Björn Kristjánsson:

Jeg hafði einmitt veitt þessum tveim atriðum athygli, sem hv. frsm. (E. A.) gat um. Að vísu koma undanþágur til greina. En er jeg hafði athugað, hve ströng skilyrðin eru gagnvart útlendingum, t. d. um leigu veiði í ám, sem eigi má leigja útlendingum lengur en í 3 ár, án stjórnarleyfis, þá þóttist jeg sjá, að stjórnin mundi aldrei leyfa sjer að fara langt fram úr því, sem til er tekið. Jeg geng að því vísu að jafnvíðtæka ívilnun og þyrfti til þess að hægt væri að reka námuna, mundi stjórnin ekki sjá sjer fært að gefa. Hv. frsm. (E. A.) benti og á 4. lið. Vel veit jeg það, að búa má til hlutafjelag með innlenda strámannastjórn, en það er hvorttveggja, að strámenskan er ekki eftirsóknarverð, og svo munu útlendingar vilja komast hjá að nota hana, og jafnvel ekki sjá sjer fært að leggja fram fje, sem þeir ekki mættu stjórna sjálfir. Annars er jeg þakklátur hv. frsm. (E. A.) fyrir, að hann vill leyfa mjer að tala við nefndina. Og mun jeg þá koma fram með breytingar þessu viðvíkjandi. Það er mjer hið mesta áhugamál, að námur hjer á landi verði rannsakaðar, svo oss gefist kostur á að þekkja okkar eigið land.