25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Síst kom mjer til hugar, að brtt. mín á þgskj. 972 mundi leiða af sjer aðra eins rimmu og raun er á orðin. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gerði svo góða grein fyrir till., að jeg hefi litlu þar við að bæta.

Mikið af ræðu háttv. þm. V-Ísf. (M. Ó.) var útúrsnúningur sem þarflaust er að gefa gaum. Háttv. þm. (M. Ó.) sagði að ræða háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefði ekki sannfært sig. Skal jeg ekki rengja það, en það sýnir ekki annað en að háttv. þm. (M. Ó.) lætur ekki sannfærast af góðum og gildum rökum.

Jeg skoða þessa fjárveitingu ekki sem eftirgjöf af láni, heldur sem styrk til að framkvæma dýrtíðarráðstöfun. Það er líkt háttað með þetta og með Tjörnesnámuna, sem landssjóður varð að taks að sjer vegna styrjaldarinnar.

Háttv. þm. (M. Ó.) sagði, að það væri ósamræmi að veita þessum mönnum eftirgjöf. en öðrum ekki. En jeg segi, að það sje einmitt til að koma á samræmi, og skal jeg í því sambandi minna á Eskihlíðarvinnuna og Hafnarfjarðarveginn Vinnan á báðum þessum stöðum var sumpart dýrtíðarvinna til hjálpar fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð. Um líkt er hjer að ræða, að því er snertir Ísafjörð og Bolungarvík.

Enn er eins að gæta. Vegna kolanámsins í Gilsnámu nutu Ísfirðingar minni niðurfærslu á landsjóðskolunum tiltölulega en aðrir, því að þeir höfðu kolin úr námunni. Sparaðist landssjóði fje við þetta.

Till. fjárveitinganefndar um að synja um styrk þennan mun ekki vera af sparnaði einum sprottin, heldur af ástæðum sem ekki hæfir að nefna hjer í deildinni.

Að lokum skal jeg minna á, að styrkur var veittur til kolanáms í Strandasýslu og að þar stóð líkt á og hjer. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St) dæmdi um mál þetta af þekkingu, og fyrir því ætti háttv. deild að beygja sig.