25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Stefánsson:

Meðan háttv. þm. V-Ísf. (M. Ó.) var að flytja ræðu sína, datt mjer í hug þessi setning úr Heljarslóðarorustu: ,,Þá hló kammerráð eitt á Vesturlandi svo hátt, að hvalir hlupu á land í Trjekyllisvík.“ Slíkan hávaða hefi jeg ekki heyrt nýlega í þingsalnum. Háttv. þm. (M. Ó.) hjet á allan þingheim að duga, rjett eins og ættjörðin væri í voða stödd, og hann ætlaði að bjarga henni með bægslagangi sínum.

Í mínum augum er þetta nú ekki það stórmál að ástæða sje til að ganga af göflunum vegna þess með hávaða, fjarstæðum og fáryrðum. Annað eins og þetta hendir sjaldan minn góða vin og sessunaut. Það má segja líkt um hann og Einar Þambaskelfir sagði forðum: „Þá hefir Erlingur hræddur verið“. Hv. þm. (M. Ó.) hefir verið hræddur um, að þessari till. mundi byrja betur en styrkbeiðni hans í fyrra til kolanáms í Súgandafirði. Jeg greiddi atkv. með þeirri beiðni og væri það því ósamræmi, ef jeg styddi ekki þessa líka.

Háttv. þm. (M. Ó.) þótti hart, ef landssjóður ætti að bíða halla af þessu fyrirtæki. En það er einmitt það, sem hann hefir orðið að gera á þessum styrjaldar og dýrtíðartímum. Þeir hafa kostað landssjóð svo hundruðum þúsunda króna hefir skift. Háttv. þm. (M. Ó.) mun eflaust átta sig á þessu, ef hann lætur ekki geð sitt hlaupa með sig í gönur. Hann man eflaust eftir Tjörnesnámunni, Hafnarfjarðarveginum og Öskjuhlíðarvinnunni, að jeg ekki nefni fleira.

Jeg gat þess að eins, að það hefði verið fyrir áeggjan manns, sem stjórnin sendi, að kolanna var leitað á óheppilegum stað. Það má segja, að þar hafi verið of lengi unnið, en víst má þó virða það til vorkunnar, þar sem trúnaðarmaður stjórnarinnar hafði ráðið til þess; enda mátti skoða það sem skipun af stjórnarinnar hendi, þar sem hennar maður lagði svo fyrir, að hætta á þeim stað, sem vinnan var hafin á, og hverfa að hinum, sem miður reyndist.

Hjer er ekki um eftirgjöf á láni í venjulegum skilningi að ræða, heldur hitt, að stjórnin hlaupi undir bagga með þessum mönnum, sem öðrum fleiri, og ljetti lítið eitt undir með þeim, vegna halla þess, er þeir biðu við að ráðast í óarðvænlega vinnu, til að ráða fram úr eldsneytisskortinum.

Jeg hefi nú fengið upplýsingar um verðið á kolunum úr námunni; þau voru seld á 12–15 kr. skippundið á staðnum, eða um 20 kr. skippundið á Ísafirði. Þetta mun verða talið fullhátt verð, þegar þess er gætt, að þessi kol eru ekki annað en surtarbrandur.

Jeg hefi ef til vill ekki tekið það fram, að verkfærin, sem að láni voru fengin, hafa verið borguð fullu verði.

Jeg sje enga ástæðu til að tala um mál þetta af nokkrum æsingi. En það verð jeg að telja, að þessi fjárbeiðni eigi við eins góð rök að styðjast eins og margar aðrar, sem þingið hefir tekið til greina. Það hygg jeg að viðurkent muni verða, að við Vestfirðingar höfum ekki verið handalangir í landssjóð, en þykjumst hins vegar greiða okkar hluta gjalda í landssjóðinn, og að því leyti sje þessi litla fjárveiting til þeirra ekki órjettmæt.