02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Frsm. (Karl Einarsson):

Frv. þetta er borið fram af háttv. þm. Snæf. (H. St.), og er á þgskj. 240, nefndarálitið á þgskj. 608 og álit fjárveitinganefndar á þgskj. 641.

Eins og sjest á nál., er sjávarútvegsnefnd sammála um að ráða hv. deild til að samþ. frv. Fyrir nefndinni lá áætlum um kostnaðinn, og er hún prentuð upp í nál. í aðaldráttunum. Nákvæm rannsókn er að vísu eigi fengin enn, enda er ekki við því að búast, en sjerfróður maður, sem nefndin átti tal við, sagði, að þessi upphæð mundi nægja.

Hafnargerð þessi yrði til stórmikils gagns fyrir alt Snæfellsnes. Þar er mótorbátaútvegur ómögulegur, en fiskimið ágæt skamt frá. Þarna má gera ágætishöfn, er má stækka eftir vild, og kostnaðurinn er eigi eins mikill og víða annarsstaðar, þar eð dýpið er mjög hæfilegt. — Nefndin var í nokkrum vafa um, hvort ekki bæri að setja inn í frv. ákvæði um, að sýslunefnd Snæfellsnessýslu skyldi ábyrgjast lánið, en við hurfum frá því, af því við vorum ekki vissir um, að það væri neitt tryggara, enda má altaf laga það í meðferð málsins. En það út af fyrir sig ætti ekki að geta hindrað framgang þess.

Við litum svo á, að hafnargerðir væru einhver allra stærstu framfaramál, einkum þar sem fiskisælt er, því þær gera ekki eingöngu líf sjómanna þægilegra og óhultara, heldur er og beinn og óbeinn hagnaður að þeim.

Þetta mál á alt að liggja opið fyrir, enda stendur í 1. gr., að það eigi að rannsaka það til fullnustu, og getur það tekið 1–2 ár. En í það má ekki horfa, til þess að málið geti verið vel undirbúið.

Jeg skal svo ekki tala meira að sinni, en ef æskt er eftir, að gerð sje grein fyrir staðháttum, vona jeg, að hv. þm. Snæf.(H. St.) greini frá þeim.