02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Frsm. (Karl Einarsson):

Það hefir ekki andað kalt gegn þessu frv., enda hefir engum dulist, að hjer er um þarflegt mál að ræða. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði um, að ekki hefðu verið rjett ummæli mín um hafnargerð Ísafjarðarkaupstaðar, og skal jeg játa, að jeg hafði ekki yfirvegað það mál vel, en það kemur ekki þessu máli við. Það er ekki neitt að segja við því, að verkinu sje haldið áfram, þegar einu sinni er byrjað á því, því ógerlegt er að láta dýr verkfæri liggja ónotuð árum saman.

Þó fje sje veitt í fjárlögunum, getur það aldrei orðið nema áætluð upphæð. Þess vegna finst mjer þýðingarlítið, hvort það er gert eða ekki. Stjórnin hefir í hendi sjer að veita fje til þessa. Mjer finst siðferðisleg skylda hv. þings að gera alt, sem í þess valdi stendur, til þess að bæta hafnir landsins.

Viðvíkjandi því, sem sagt var um ábyrgð sýslunefndar, skal jeg taka fram, að eins og jeg sagði áðan, er það að engu leyti tryggara, og gæti að mörgu leyti verið óheppilegra, að sýslunefnd hefði hönd í bagga með þessu máli. Það var sagt, að hjer væri að eins um eitt sveitarfjelag að ræða, en það er ekki rjett, því að flest hjeruð sýslunnar mundu hafa gagn af þessari hafnargerð. Veit jeg, að t. d. í Vestmannaeyjum er gert út af mörgum mönnum bæði úr Landeyjum og Skaftafellssýslu allan veturinn.

Mjer láðist að taka það fram áðan, að landið á alla Ólafsvík, og með þessu er því verið að vinna að því að auka verðmæti landssjóðsins.