04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

115. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekki komið hjer með brtt. til þess að leggja stein í götu þessa máls. Hjer er efalaust um að ræða þá hafnargerð, sem nú er mest þörf á, svo tilfinnanlegur skortur sem er á höfn á Snæfellsnesi. En mjer finst málið ekki nægilega undirbúið, eins og allur gangur þess hjer í deildinni virðist líka benda á, og háttv. frsm. (K. E.) sjálfur var ekki fjarri að svo væri.

Jeg býst heldur ekki við því, að þetta fyrirtæki verði framkvæmt á næsta fjárhagstímabili. Þetta er stórt fyrirtæki, vandasamt og dýrt og þarf því góðrar stjórnar. Og þar kemur til þingsins kasta, því ríkið er þarna landsdrottinn og á þar auk þess margra annara hagsmuna að gæta. Bæði munu lóðir í sjálfu kauptúninu hækka í verði, og ekki ósennilegt, að eins verði um jarðir í nágrenninu, og ef til vill alstaðar á Nesinu. En nú er það líka vitanlegt, að ríkið á tiltölulega mest af jörðum sínum einmitt um þessar slóðir. Þess vegna er það, að mjer finst ekki ónauðsynlegt nje óviðeigandi, að ríkið hefði fastan umboðsmann á þessum stað.