25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Það sýndist svo, að jeg hefði móðgað hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) með ummælum mínum áðan. Jeg sagði ekkert um það, að hann hefði ekki minst á till. mína, en ummæli hans stóðu í svo nánu sambandi við hana, að ekki virtist neitt óþinglegt að minnast á þau.

Hv. þm. (M. Ó.) sagði, að hann gæti ekki verið með þessari málaleitun, af því að hann væri á móti „principinu“. Jeg skil ekki, hvernig hann getur litið svo á, jafnvitur maður. Jeg sje ekki, hver „princip“-munur er á því, að veita styrkinn eftir á eða fyrirfram. Það er ekki langt síðan hv. þm. sótti um styrk í sama skyni handa hreppi í hans kjördæmi. Jeg var því líka fylgjandi, og skammast mín ekkert fyrir, því að mjer virtist sú málaleitun hv. þm. (M. Ó.) fullkomlega þess makleg, að hún næði fram að ganga.

Hann kvað mig hafa farið með getsakir, eins og oft áður. En jeg vil í því sambandi leyfa mjer að benda honum á:

„Maður, líttu þjer nær, liggur í götunni steinn.“

Því að jeg veit ekki hvað eru getsakir, ef ekki það, að beina því að mönnum, að þeir sjeu að narra út fje að láni hjá landssjóði, með þeim ráðnum hug, að borga það aldrei aftur. Þetta tel jeg meiri getsakir en þótt jeg segði, að svo liti út fyrir, að hjer lægju að baki einhverjar þær hvatir, er maður kynokaði sjer við að nefna í þingsalnum.

Hvernig sem fer um þetta mál í deildinni, verð jeg að líta svo á, að þá sje fult samræmi í gerðum þings og stjórnar, ef styrkur þessi er veittur þessum hjeruðum, eins og mörgum öðrum í líku skyni. Þó að jeg virði alla sparnaðarviðleitni, virðist mjer sjálfsagt að gæta þess, að öll um hjeruðum sje sýnd sama sanngirni. Að jeg færi styrk þennan niður í 12 þús. kemur af því, að menn myndu, sparnaðar vegna, frekar fallast á það en 15 þús., jafnvel þótt sú veiting hv. efri deildar sje í alla staði rjettlætingarverð, eins og vænta mátti, þar sem jafnmætir og ágætir menn fjölluðu um.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók rjettilega fram margt um ýmislegan kostnað og óhagræði, er fyrirtæki þessu mætti. Því vil jeg þó bæta við, að meðal annars, er gerði það að verkum, að hallinn varð eins gífurlegur og raun hefir á orðið, var það, að þrír mánuðir fóru algerlega í ýmsar rannsóknir, sem lutu að því, hvar heppilegast væri að byrja á námunni. Þessar rannsóknir voru gerðar samkvæmt fyrirmælum þeirra manna, er stjórnin fal að rannsaka námuna, því eins og tekið hefir verið fram, þá átti hún aðalþáttinn í því, að á henni var byrjað. En auðvitað er ekki stjórninni um það kent, þótt hún fyrirskipaði framkvæmdir. En þar sem af því leiddi tap, þá er ekki nema rjett, að þingið hlaupi hjer undir bagga með hjeraðinu. Sá baggi er nógu þungur, þótt hjeraðið greiði ekki nema 40,000 kr. af þeim halla, sem vitanlegt er að hefir orðið á kolagreftinum.