25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. (H. K.) talaði um, skal jeg taka það fram, að það, sem jeg vítti, var það, að því var dróttað að fjárveitinganefnd, að eitthvað annað en skoðanir hefðu ráðið afstöðu hennar. (H. K.: Það getur ekki verið ,,principið“!) Vill ekki þingmaðurinn þegja, meðan annar talar, sem leyfi hefir til þess. Það á ekki að bregða mönnum um slíkt, síst þegar þeir hafa ekki haldið öðru fram en því, sem byggist á meginskoðunum þeirra. Menni víkja ekki frá meginskoðunum sínum, nema þeir fái á sig vindhanaorð. En það orð hefi jeg aldrei haft á mjer. Jeg hefi jafnan haft og hefi ákveðna skoðun í þessu máli. Jeg vil ekki, að sveitarfjelög eða aðrir fái lán úr landssjóði án þess að borga aftur. Það gæti helst komið til mála, ef um hallærislán væri að ræða, að einhverjum hreppum Barðastrandarsýslu væri gefið upp, ef þeir væru komnir „á kúpuna“.

Ef þessari deild yrði það glapræði á, að samþykkja að gefa upp þetta lán, þá mun það vera af því, að hún er nokkrum sinnum áður búin að drýgja þessa yfirsjón. En þá væri henni best að snúa sem allra fyrst frá villu síns vegar.

Þótt þessi málaleitun hefði komið úr mínu eigin kjördæmi, hefði jeg verið á móti henni. Hún stríðir gegn mínu eðli. Jeg vil, að hver borgi sína þörf. Sjá menn það, er þeir líta á afstöðu mína til annara mála. Jeg vildi hækka læknataxtann, af því að jeg vil, að þeir, sem læknis þurfa, gjaldi honum sjálfir. Jeg vil, að menn borgi sjálfir prestum, er þeir vilja hafa.

Verði þessi tillaga samþykt, sem jeg í lengstu lög vona að ekki verði, þá fæst enn þá ný átylla til að geta sjer þess til, að þingmenn skoði landssjóðinn sem einskonar hrossskrokk, og þá um leið einkaerindi þeirra á þingið að kroppa eins og hrafnar af beinunum, og þá auðvitað hver þeirra sem mest handa sínu kjördæmi.